21. Okt. 2019

Gunnar Smári fjallar um Ómar orðabelg

Gunnar Smári er höfundur og leikari í boðssýningu Þjóðleikhússins fyrir börn

Gunnar Smári Jóhannesson skrifaði og leikur leikritið Ómar orðabelg sem Þjóðleikhúsið sýnir sem boðssýningu fyrir 4-6 ára börn. Sýningin hefur nú ferðast um landið þvert og endilangt og hefur einnig verið sýnd fyrir fjölda leikskólabarna á höfuðborgarsvæðinu, og fengið frábærar viðtökur.

Gunnar Smári skrifaði um sýninguna á vegg sínum á Facebook 20. október, í kjölfar þess að velt var upp þeirri spurningu hvort rétt væri að fjalla um dauðann í verkum fyrir börn. Hér á eftir fylgja skrif Gunnars:


Seinustu tvo mánuði hef ég ferðast um landið á vegum þjóðleikhúsins og sýnt fyrir börn á aldrinum 4-6 ára barnasýninguna Ómar Orðabelg. Þetta hefur verið gefandi ferli og hef ég fengið gífurlega jákvæð viðbrögð allstaðar á landinu.

Það var ekki fyrr en ég kom til höfuðborgarinnar að nokkrir leikskólar töldu sér ekki fært á að mæta því þeim þótti sýningin óviðeigandi sökum þess að ég fjalla um dauðann í verkinu.

Þykir mér sárt að heyra það, enda var verkið alls ekki skrifað í þeim tilgangi að vera særandi eða óviðeigandi fyrir börn. Verkið fjallar fyrst og fremst um orð, hvaðan orðin koma og hvað orðin þýða. Vissuð þið t.d. að appelsína er epli frá Kína? Og orðið fíll kemur úr arabísku? Þetta eru tvö orð sem Ómar útskýrir fyrir börnunum. Sum orð skiljum við vel og önnur þekkjum við en vitum ekki hvað þau þýða í raun og veru.

Eitt þessara orða er dauðinn. Hvað er að deyja? Veit það einhver í raun og veru? Eða verður dauðinn ávallt óþekktur hluti af lífinu sem fáum aldrei svar við? Við getum flett því upp í öllum orðabókum heimsins en finnum aldrei nægilega góða útskýringu á því hvað felst í dauðanum.

Dauðinn er eitt af viðfangsefnum leikritsins, þó svo að sjálf sýningin fjalli um orð. Í lokin fá börnin að vita að besta vinkona Ómars, öldruð amma hans, sé dáin. Ómar veit ekki hvernig hann á að bregðast við þessum fréttum, enda hefur hann aldrei lært hvað orðið „dauði“ þýðir. Því spyr hann vin sinn Gunnar hvað það felist í því að deyja.

„Að deyja er hluti af lífinu, við fæðumst öll og við deyjum öll. En þó svo að einhver deyi, þá deyja aldrei minningar, foreldrar mínir eru t.d. dáin en alltaf þegar ég sakna þeirra þá hugsa ég til þeirra og tala um þau við vini mína og fjölskyldu og þá er eins og þau séu ennþá hjá mér.“

Þessi texti er tekinn frá mér persónulega og er svar Gunnars til Ómars. Ég missti föður minn á svipuðum aldri og þau börn sem leikritið er skrifað fyrir. Þó ég hafi verið ungur, aðeins sjö ára gamall, þá vissi ég hvað dauðinn var. En ég vissi ekki hvað það var að syrgja.

Sem barn reyndi ég bara að gleyma, þegar ég varð eldri notaði ég húmorinn og svo eftir að hafa bælt reiði mína og tilfinningar í öll þessi ár, brotnaði ég loks niður og grét með sjálfum mér.

Ég fæ aldrei að hitta mömmu og pabba aftur. En ég elska að tala um þau, skoða myndir af þeim og pússa upp gamla skenkinn hennar mömmu, því þá er eins og þau séu ennþá hjá mér. Það deyr enginn í þeim skilningi að viðkomandi hverfur fyrir fullt og allt. Í gegnum minningar, hlátur, ljósmyndir, grátur, lykt, hluti og hugsanir heldur dáið fólk áfram að lifa með okkur. Dauðinn er órjúfanlegur hluti lífsins en hann tók ekki mömmu og pabba frá mér. Þau eru ennþá hjá mér og öllum þeim sem þekktu þau og öllum þeim sem heyra sögur af þeim, þau lifa áfram í húsinu sem þau byggðu saman, þau lifa í Tálknafirði og þau lifa í Kópavogi, þau lifa þar sem minning þeirra er geymd. Bak við alla þá steina sem þau hafa hvolft, í mosanum sem þau hafa stigið á, í Búdda styttunni sem ég erfði eftir þau, í blóðinu mínu og barnabörnunum sem þau fengu aldrei að hitta. Hvernig á að syrgja? Ég veit það ekki. Eflaust mjög persónubundið en mér þykir gott að tala um hina látnu.

Ég skrifa ekki þennan póst til þess að úthúða þeim sem þykir óviðeigandi að tala um dauðann við börn. Ég einn á engan rétt á því að ákveða hvað sé rétt í þessu máli. Ég vil aðeins opna samtal, hvenær er eðlilegt að tala um dauðann? Hvenær má útskýra fyrir börnum hvað dauðinn er? Hversu gömul þurfa þau að vera? Og hvernig á að gera það ? Á leiksviði ? Í bíómyndum? Í bókmenntum? Hjá sálfræðingi?

Ég veit ekki svarið við þessum spurningum en ég veit þó að uppáhalds barnaefnið mitt var Bróðir minn Ljónshjarta, Konungur ljónanna, Múmínálfarnir, Ronja ræningjadóttir, Benjamín Dúfa og Nonni og Manni. Allt þetta barnaefni fjallar á einhvern hátt, eins og Ómar Orðabelgur, um dauðann. Múmínálfarnir þurfa að flýja halastjörnu sem mun tortíma öllu á jarðríki, faðir Simba er myrtur, Skalla-Pétur deyr úr elli og svo er það fallegasta myndin, sem fjallar um bræðurna tvo.

Annar deyr við það að bjarga bróður sínum úr brennandi húsi og hinn deyr skömmu síðar úr veiki. Svo hittast þeir á ný í Nangíala.

Ég sá sjálfan mig í þessum bíómyndum sem barn, því þær sögðu mér að ég væri ekki einn. Sögðu mér að ég væri ekki sá eini sem hafði misst. Þessar skálduðu persónur misstu líka fjölskyldu sína og vini, saga þeirra gerðu dauðann minna framandi og veittu mér innsýn í þá staðreynd að allir missa einhvern einhvertímann. Dauðinn getur verið grimmur en í gegnum samtöl verður einmanaleikinn bærilegri.

Ég vona að þau börn sem fá að hitta Ómar átti sig á því að dauðinn er ekki þögn heldur samtal í sorg. Deilið endilega með mér ykkar skoðunum. Ég enda þetta svo á heiðarlegustu en jafnframt fallegustu setningu barnaefnis allra tíma, eftir Astrid Lindgren um bræðurna tvo.
– Jonatan, tror du att jag ska dö ?
– Ja, skorpan. Jag vet det.


Hér er hægt að hlýða á viðtal við Gunnar Smára á ruv.is


Hér má sjá viðtal við Gunnar Smára á Visir.is.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími