23. Maí. 2023

Garðar Cortes óperusöngvari jarðsunginn

Garðar Emanúel Axelsson Cortes (1940-2023) óperusöngvari verður borinn til grafar í dag. Garðar Cortes hafði mikil áhrif á íslenskt söng- og tónlistarlíf og óperuflutning hér á landi, meðal annars í Þjóðleikhúsinu. Þjóðleikhúsið þakkar Garðari fyrir sitt mikilvæga starf og vottar fjölskyldu hans innilega samúð.

Garðar hóf fljótlega að starfa í Þjóðleikhúsinu eftir að hann lauk tónlistarnámi í London, en þar nam hann söng og hljómsveitar- og kórstjórn. Garðar söng fjölmörg hlutverk í óperum, óperettum og söngleikjum í Þjóðleikhúsinu, og var hljómsveitarstjóri í ýmsum sýningum. Þá stjórnaði hann jafnframt Þjóðleikhúskórnum um tíma. Hann fór m.a. með sönghlutverk í Leðurblökunni, Carmen, Aidu, Silkitrommunni, Carmina Burana og Helenu fögru. Eitt af eftirminnilegri hlutverkum hans í huga margra er Rudolfo í La bohème í Þjóðleikhúsinu árið 1981, og er meðfylgjandi mynd úr þeirri sýningu.

Garðar stofnaði Söngskólann í Reykjavík árið 1973 og stofnaði Íslensku óperuna árið 1979, þar sem hann var óperustjóri um tveggja áratuga skeið. Eins kom hann Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur á fót um miðjan áttunda áratuginn og stofnaði um svipað leyti Kór Söngskólans, sem varð síðar að Óperukórnum í Reykjavík. Á ferli sínum varð Garðar þekktur í óperuhúsum víða um lönd, og hljómplötur með rödd hans eru fjöldamargar. Garðar var sæmdur Hinni íslensku fálkaorðu árið 1990 fyrir störf sín að tónlist og hlaut Bjartsýnisverðlaun Brösters fyrir stofnun Íslensku óperunnar á sínum tíma. Þá var hann sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2017 og hlaut fjölda annarra verðlauna og viðurkenninga.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími