21. Sep. 2021

Fyrsta frumsýningin í nýju Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins – Út að borða með Ester

Nýtt Hádegisleikhús Þjóðleikhússins hefur göngu sína í Leikhúskjallaranum miðvikudaginn 22. september þegar verkið Út að borða með Ester, eftir Bjarna Jónsson, verður frumsýnt. Verkið er eitt fjögurra nýrra íslenskra verka sem frumsýnd verða í Hádegisleikhúsinu í vetur. Í Hádegisleikhúsinu njóta gestir stuttrar leiksýningar og ljúffengrar súpu í hádeginu. Hver sýning tekur innan við hálftíma í flutningi.

Hádegisleikhús Þjóðleikhússins hefur nú tekið til starfa í endurnýjuðum Leikhúskjallara. Þar sjá gestir stutt ný íslensk leikrit á meðan þeir njóta hádegisverðar sem samanstendur af ljúffengri súpu og nýbökuðu brauði. Húsið opnar kl. 11.45 og matur er borinn fram til kl. 12.15, en um það leyti hefst leiksýningin. Sýningin tekur tæpan hálftíma. Gestum er sannarlega velkomið að sitja áfram eftir sýningu og fá sér kaffibolla. 

Í Hádegisleikhúsinu verða alls frumsýnd fjögur ný íslensk verk á þessu leikári og í því fyrsta, Út að borða með Ester, sem er eftir leikskáldið Bjarna Jónsson, segir frá Hauki og Ester sem hafa verið búsett á Kanarí en eru nú strand á Íslandi. Þau fara saman út að borða í hádeginu en Ester er orðin vegan og á afar erfitt með að losa sig við eitt og annað úr fortíðinni. Hádegisverðurinn fer úr böndunum. Drepfyndið nýtt verk eftir eitt af okkar reyndustu leikskáldum. 

Aðrir höfundar sem eiga verk í Hádegisleikhúsinu í vetur eru þau Sólveig Eir Stewart, Jón Gnarr og Hildur Selma Sigbertsdóttir. Þjóðleikhúsið auglýsti árið 2020 eftir handritum og hugmyndum að styttri verkum fyrir hádegisleikhús. Þátttaka íslenskra leikskálda var gríðarlega góð en alls bárust 254 verk frá 194 höfundum. Verkin verða í framhaldinu tekin upp og sýnd í Sunnudagsleikhúsi RÚV.

KAUPA MIÐA
Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími