15. Jan. 2021

Emilíana Torrini og Prins Póló flytja ný lög við sama texta í sýningunni Vertu úlfur

Emilíana Torrini og Prinsinn senda frá sér sitt lagið hvort við sama textann. Annað lýsir oflæti og hitt þunglyndi.


Í tengslum við sýninguna Vertu úlfur, sem frumsýnd verður í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 22. janúar, verða gefin út tvö lög, eitt með Emilíönu Torrini og annað með Prins Póló. Segja má að lögin endurspegli ólíkar hliðar geðhvarfa. Lag Emilíönu, sem hún semur í samvinnu við Markétu Irglová, fangar hinar dekkri og viðkvæmari hliðar á meðan lag Prinsins endurspeglar oflætið. Þetta er í fyrsta sinn sem Emilíana Torrini semur lag á íslensku og texti hennar er einnig notaður í lagi Prins Póló. Höfundur annarrar tónlistar í sýningunni er Valgeir Sigurðsson sem hefur getið sér gott orð og á langan feril að baki í kvikmynda- og leikhústónlist.

Bókin Vertu úlfur kom út árið 2015 og vakti mikla athygli. Þar fjallar Héðinn Unnsteinsson á opinskáan hátt um baráttu sína við geðrænar áskoranir eftir að hafa greinst með geðhvörf sem ungur maður. Héðinn rekur þar sögu sína; baráttumannsins sem tekst að brjótast út úr vítahringnum og nær að snúa sinni skelfilegustu reynslu upp í þann styrk sem þarf til að breyta kerfinu. Héðinn hefur um árabil starfað við stefnumótunarmál í geðheilbrigðismálum og er í dag formaður Geðhjálpar.

Leiklistarhjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors heilluðust bæði af bók Héðins. Þjóðleikhúsið fékk Unni til að skrifa einleik upp úr verkinu og leikstýra, með Björn í hlutverki. Unnur hefur einnig leitað fanga í öðrum verkum eftir Héðin, svo sem blaðagreinum, ljóðum og fyrirlestrum. Upphaflega stóð til að sýna verkið í Kassanum, enda ekki oft sem einleikir rata á Stóra sviðið, en vegna samkomutakmarkana var ákveðið að nýta tækifærið og flytja sýninguna upp á stórt svið, þar sem nýir möguleikar við sviðsetningu opnast.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími