06. Maí. 2021

Ljúkum byggingu Þjóðleikhússins

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir Halldór Guðmundsson, formann þjóðleikhúsráðs, um húsnæðismál Þjóðleikhússins til framtíðar.

Þessa áhugaverðu grein má lesa hér:

Eflum menningu á krepputíma – Ljúkum við byggingu Þjóðleikhússins

Halldór Guðmundsson:
Eflum menningu á krepputíma –
Ljúkum við byggingu Þjóðleikhússins

Þjóðleikhúsið ber nafn með rentu – næstum þriðjungur þjóðarinnar sækir sér þangað skemmtun og andlega upplyftingu á hverju ári. Jafnvel á þessum afleitu Covid tímum hefur því tekist að gleðja gesti sína með nýju íslensku verki (Kópavogskrónika), erlendu samtímaverki (Upphaf), nýju barnaleikriti (Kafbáturinn), sígildu nútímaverki í sterkri og ögrandi uppfærslu (Nashyrningarnir), skilað merkilegu innleggi í umræðu samtímans um andleg veikindi og ábyrgð þjóðfélagsins (Vertu Úlfur) og sett á svið uppáhalds fjölskylduskemmtun Íslendinga með nýjum þrótti (Kardemommubærinn), og er þó ekki allt talið; þegar öll sund virtust bókstaflega lokuð var bara leikið á tröppunum fyrir framan húsið.

Í fyrra fagnaði Þjóðleikhúsið 70 ára afmæli og er þó mun lengra síðan hafist var handa við bygginguna. Húsið var að stórum hluta byggt fyrir röskum 90 árum í miðri heimskreppu. Það var Íslendingum til sóma að láta erfiða tíma ekki aftra sér frá því að gera að veruleika þann draum sem Indriði Einarsson og Sigurður Guðmundsson höfðu fyrst kastað á milli sín fyrir hálfri annarri öld.

Með sama hætti var það mikil framsýni að ljúka við byggingu Hörpu, þess frábæra tónlistarhúss sem nú fagnar tíu ára afmæli, þrátt fyrir bankahrunið 2008.
Að nýju hafa stjórnvöld boðað miklar fjárfestingar í innviðum til að bregðast við þeirri efnahagskreppu sem er fylgifiskur veirufaraldursins mikla. Þá er gott að minna á að innviðir eru ekki bara vegir og brýr, skólar og sjúkrahús og allt hvert öðru þarfara; það eru líka til menningarlegir innviðir og á því sviði býðst núna alveg sérstakt tækifæri sem snýr að Þjóðleikhúsinu.

Um áratuga skeið hefur verið bent á nauðsyn þess að bæta aðstöðu Þjóðleikhússins til sýninga á minna sviði. Í því sambandi hefur verið viðraður sá kostur að byggja við Þjóðleikhúsið, austan megin, einfalda viðbyggingu, svokallaðan svartan kassa, með leiksviði fyrir um það bil 200-300 áhorfendur. Minna svið hússins hefur lengi verið í hinu gamla leikfimishúsi Jóns Þorsteinssonar sem er einmitt það, gamalt leikfimishús. Það uppfyllir ekki kröfur sem eðlilegt er að gera til aðstöðu helstu sviðslistastofnunar þjóðarinnar. Svartur kassi sem er sambyggður leikhúsinu er næsta stóra skrefið í þróun Þjóðleikhússins sem leikhúss og samverustaðar, rétt eins og bygging nýja sviðsins varð Borgarleikhúsinu mikill vegsauki. Í anddyri og á veitingastaðnum hittast gestir sem eru að fara að sjá ólíkar sýningar og ferðin verður meiri upplifun fyrir vikið. Eins yrði það í Þjóðleikhúsinu, þar sem góðar breytingar hafa nú verið gerðar á framhúsi sem gætu nýst gestum beggja sviða, þar myndu blanda geði nashyrningar og ræningjar, úlfar og Kópavogsbúar.

Með þessari viðbyggingu fengi Þjóðleikhúsið ekki bara svið sem sæmir slíkum stað, heldur gæti það líka leyst ýmiss konar vanda annan. Íslenski dansflokkurinn, sem hefur verið á skammarlegum hrakhólum í mörg ár, gæti fengið aðstöðu í Jóns Þorsteinssonar húsinu og haft sýningar ýmist þar eða í Þjóðleikhúsinu, ef um semdist, svo dæmi sé tekið. Undanfarið hafa verið mjög athyglisverðar umræður um nauðsyn þess að stofna þjóðaróperu. Yrði það gert, gæti hún átt í góðri samvinnu við Þjóðleikhúsið, komist með sýningar á Stóra sviðið vegna aukins sveigjanleika hjá leikhúsinu sjálfu, eða sýnt á nýja sviðinu og auðvitað líka í Hörpu eftir atvikum. Eðlilegt væri að skoða þann kost að þjóðarópera yrði sjálfstæð deild í þjóðleikhúsi, eins og er í Kaupmannahöfn og víðar í Evrópu. Þá myndi yfirbygging og stoðdeildir samnýtast vel og stærstur hluti framlags til óperuflutnings geta farið til listsköpunarinnar sjálfrar, eins og vera ber. Hús eru byggð utan um líf og viðbyggingin við Þjóðleikhúsið gæti stuðlað að farsælli lausn á ýmsum vanda íslenskra sviðslista, sé skynsamlega á málum haldið.

Þetta er sannarlega ekki ný hugmynd og fyrir fimmtán árum vann þýskt verkfræðifyrirtæki ítarlega úttekt á slíkri viðbyggingu sem að flestu leyti er kórrétt enn þann dag í dag. Uppúr henni vann Gunnar Torfason verkfræðingur aðra góða úttekt nokkrum árum síðar. Alltaf öðru hverju síðan hafa verið haldnir líflegir fundir í ráðuneytum um nýjar úttektir og frumathuganir og minnisblöð og margt eyðublaðið hefur mátt lúta í gras. En nú er sá kostur að ganga til verka og leysa húsnæðismál Þjóðleikhússins, eins og mennta- og menningarmálaráðherra lagði til í grein í tilefni afmælisins (Morgunblaðið, 23. apríl 2020). Hér skal tekið undir það, nú þegar stendur til að fjárfesta í innviðum: Notum tækifærið, eflum menningarstarf okkar þegar sverfur að og ráðumst í viðbyggingu við Þjóðleikhúsið og eignumst um leið það leikhús sem þjóðin á skilið.

Höfundur er rithöfundur og formaður þjóðleikhúsráðs

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími