Athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 21-22
Þjóðleikhúsið hefur staðið fyrir vali á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins allt frá leikárinu 1993-1994. Þar sem valið féll niður tvö leikár í röð vegna Covid-faraldursins var ákveðið að þessu sinni að velja tvær leiksýningar, eina barnasýningu og aðra ætlaða fullorðnum. Sýningarnar verða báðar sýndar í Þjóðleikhúsinu í júní.
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta og sjöunda sinn. Vegna Covid-faraldursins náðu færri leikfélög að setja á svið sýningar en venjubundið er, og í ár sóttu sjö sýningar um að koma til greina við valið. Þar sem valið féll niður tvö leikár í röð vegna faraldursins var að þessu sinni tekin sú ákvörðun að velja tvær leiksýningar, og vekja þannig um leið sérstaka athygli á hinu kraftmikla starfi sem unnið er í áhugaleikfélögum um land allt, þrátt fyrir oft og tíðum afar krefjandi aðstæður.
Önnur sýninganna sem valin var er Pétur Pan eftir J. M. Barry í leikstjórn Gretu Clough frá Leikflokki Húnaþings vestra og hin er Fyrsti kossinn eftir Brynju Ýr Júlíusdóttur og Guðlaug Ómar Guðmundsson í leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar frá Leikfélagi Keflavíkur. Sýningarnar verða sýndar í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í júní, Fyrsti kossinn 9. og 10. júní og Pétur Pan sunnudaginn 12. júní.
Formaður dómnefndar að þessu sinni var Björn Ingi Hilmarsson leikari, leikstjóri og verkefnastjóri barna- og fræðslustarfs í Þjóðleikhúsinu. Með honum í dómnefnd sátu Sváfnir Sigurðarson tónlistarmaður og kynningarfulltrúi Þjóðleikhússins og Kjartan Darri Kristjánsson leikari.
Þjóðleikhúsið óskar Leikflokki Húnaþings vestra og Leikfélagi Keflavíkur innilega til hamingju og hlakkar til að sýna þessar tvær sýningar í leikhúsinu.