09. Maí. 2023

Árni Tryggvason – minning

Kveðja frá Þjóðleikhúsinu

Líkt og svo fjölmargir aðrir kynntist ég Árna Tryggvasyni fyrst í gegnum röddina, þessa rödd sem hefur fylgt okkur svo mörgum, kynslóð fram af kynslóð. Líkt og önnur börn spilaði ég hljómplötuna með Dýrunum í Hálsaskógi, með Árna í hlutverki Lilla klifurmúsar, svo ótal mörgu sinnum að Lilli og félagar í Hálsaskógi urðu mér eins og bernskuvinir. Árni heillaði mig svo í ótal hlutverkum í gegnum tíðina en Árna sjálfum kynntist ég þegar ég fékk að leika í Þjóðleikhúsinu sem barn og þar mætti mér hlýr, hæglátur og hógvær maður sem sýndi okkur börnunum áhuga.

Það var einstaklega ánægjulegt að endurnýja kynnin mörgum árum síðar þegar Árni samþykkti að taka þátt í uppsetningu á Fló á skinni sem við settum upp í minni leikhússtjóratíð hjá Leikfélagi Akureyrar. Sýningin fluttist svo í Borgarleikhúsið eftir metaðsókn norðan heiða. Það var einstakur happafengur að fá Árna til liðs við okkur, en fyrir norðan var hann auðvitað á sínum gömlu heimaslóðum úr Hrísey í Eyjafirði. Á þessum sýningum var ljóst hversu mikilvægan stað í hjarta áhorfenda Árni átti, því salurinn upptendraðist í hvert sinn sem hann steig á sviðið. Þetta var hans síðasta hlutverk á leiksviði og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með honum þar.

Árni hóf leikferil sinn hjá Leikfélagi Reykjavíkur, eftir leikaranám hjá Lárusi Pálssyni. Þar lék hann fjölmörg hlutverk á árunum 1947 til 1961, m.a. eitt af sínum eftirlætishlutverkum, Estragon í Beðið eftir Godot, árið 1960, sem hann átti eftir að leika aftur síðar hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1980.

Árni réðist til Þjóðleikhússins árið 1961. Þar var hann fastráðinn í tæpa þrjá áratugi og lék þar fjöldamörg hlutverk. Af hlutverkum Árna í Þjóðleikhúsinu mætti nefna Ketil skræk í Skugga-Sveini, Harry í My Fair Lady, Krapp í Síðasta segulbandi Krapps, grafarann í Hamlet, Skakka barka í Náttbólinu, Nagg í Endatafli og Charley í Sölumaður deyr. Á síðari árum lék Árni m.a. í Stakkaskiptum, Villiöndinni og Maður í mislitum sokkum í Þjóðleikhúsinu, auk þess sem hann lék hjá Íslensku óperunni, LR og í Loftkastalanum.

Árni lék Lilla klifurmús í fyrstu tveimur uppsetningum Þjóðleikhússins á Dýrunum í Hálsaskógi, árin 1962 og 1977, og lék Lilla á hinni sígildu hljóðupptöku af leikritinu sem gerð var árið 1967. Hann átti þannig ríkan þátt í að skapa þá lífseigu hefð sem þá mótaðist í uppsetningum á þessu geysivinsæla verki Thorbjörns Egners. Árni var í augum margra hinn eini sanni Lilli klifurmús, en ekki síður hinn eini sanni Tobías í turninum í leikriti Egners Kardemommubænum, en hann fór með hlutverkið árið 1964 og svo aftur árið 1995. Einnig lék hann trompetleikarann í Síglöðum söngvurum árið 1968 og Bastían bæjarfógeta árið 1974. Nafn Árna Tryggvasonar er þannig tengt verkum Egners órofa böndum, og það er gaman til þess að hugsa að eini leikarinn sem hefur leikið í fleiri Egner-sýningum hér en hann er einmitt sonur hans, Örn Árnason, sem hefur nú leikið í alls sjö Egner-sýningum, m.a. Lilla klifurmús árið 1992.

Rödd Árna Tryggvasonar er nú þögnuð, á hundraðasta aldursári, en lifir með okkur um ókomna tíð.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími