18. Des. 2020

Allir í jólakúlu

Vel heppnuð aðventugleði á tröppum Þjóðleikhússins verður ekki endurtekin til að stuðla að ýtrasta öryggi

Þjóðleikhúsið stóð fyrir Aðventugleði á tröppum Þjóðleikhússins um síðustu helgi, þar sem Soffía frænka og fleiri góðkunnar leikpersónur skemmtu gestum og gangandi. Dagskránni var afar vel tekið og gladdi unga sem aldna. Framkvæmdin gekk mjög vel, áhorfendur dreifðust vel um svæðið framan við leikhúsið og gestir voru hvattir til að gæta vel að nándarmörkum. Viðburðurinn var skipulagður í nánu samráði og með samþykki Sóttvarnarlæknis og Heilbrigðisráðuneytis.

Þrátt fyrir að svo vel hafi tekist til um síðustu helgi og leikhúsið hafi fengið áskoranir um að endurtaka leikinn, þá hefur verið ákveðið að standa ekki fyrir fleiri sýningum nú í aðdraganda jóla. Áætla má að enn fleiri gestir myndu mæta en um síðustu helgi, í ljósi þess hve viðburðurinn hefur spurst vel út, meðal annars með umfjöllun í fjölmiðlum. Til að gæta áfram ýtrustu varúðar hefur Þjóðleikhúsið því ákveðið að skynsamlegast sé að standa ekki fyrir fleiri sýningum í aðdraganda jóla.

Leikhúsfólkinu þykir afar leitt að geta ekki glatt börnin á tröppum Þjóðleikhússins á nýjan leik nú fyrir jólin, en það hefur verið markmið leikhússins allt frá upphafi faraldursins að sýna ýtrustu varúð og vega og meta aðstæður hverju sinni.

Leikhúsið hefur boðið upp á ýmis ný samfélagsleg verkefni á undanförnum mánuðum sem falla að tilskipunum sóttvarnaraðila, t.d. boðið leikskóla- og grunnskólabörnum í leikhúsið á tvær barnasýningar, aðventudagskrá í bíl sem keyrir milli dvalar- og hjúkrunarheimila og Hljóðleikhús í beinni útsendingu á hverju fimmtudagskvöldi.

Nú síðast sendi Þjóðleikhúsið í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá sér myndband með jólakveðju til landsmanna, þar sem listamenn beggja stofnana fluttu nýja gerð af jólalaginu Ég hlakka svo til! Þjóðleikhúsið stefnir sannarlega að því að bjóða upp á aðventugleði á tröppunum og fleiri nýjungar þessa árs að ári þegar veiran verður á bak og burt. Við hlökkum sannarlega til að mega opna dyr leikhússins, taka á móti gestum og hrífa þá með.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími