Leikárið 2025 – 2026
Á þessu leikári munum við bjóða uppá aðgengilegt sýningarhald af ólíku tagi.
Á völdum sýningum verður ýmist boðið upp á:
- Skynvænt sýningarhald
- Sýningarhald fyrir fólk með sjónskerðingu
- Táknmálstúlkun
- Textun bæði á ensku og íslensku
Skynvænt sýningarhald
Skynvænar sýningar eru einkum ætlaðar skynsegin einstaklingum og öðrum sem geta upplifað mikið skynrænt áreiti í leikhúsi.
Í tengslum við skynvænar sýningar er gefinn út sjónrænn sögðuþráður í hefti sem nálgast má rafrænt á heimasíðu leikhússins. Þar er sýningunni og skynáreiti sem hún getur vakið lýst. Gert er grein fyrir hvenær innan sýningarinnar má búast við skynrænu áreiti, svo sem óvæntum hljóðum eða ljósabreytingum, svo hver og einn geti metið hvort sýningin henti þeim og þeirra fólki og get gert ráðstafanir sem henta. Heftið verður einnig sent út rafrænt til allra þeirra sem bóka miða á skynvæna sýningu í Þjóðleikhúsinu.
Ljós í sal eru venjulega látin loga dauft og áhorfendur mega koma og fara úr sal eftir þörfum. Reglur inni í salnum eru slakari en á hefðbundnum sýningum. M.a. er ekki óheimilt að hreyfa sig eða gefa frá sér hljóð meðan á sýningu stendur og leikföng fyrir eirðarlausar hendur eru velkomin með í leikhúsið.
Auk þess er starfsfólk á staðnum til aðstoðar og þögult svæði verður í boði í framhúsi fyrir þau sem mögulega verða fyrir yfirþyrmandi skynáreiti meðan á sýningunni stendur.
Boðið verður upp á skynvænt sýningarhald á tveimur barnaverkum í Þjóðleikhúsinu í vetur. Þau eru:
- Blómin á þakinu – 12. október kl. 15:00
- Jólagjöf Skruggu – Jólaævintýri leikhúsálfanna – 6. desember kl. 15:00
Hér má nálgast sjónrænan söguþráð fyrir Blómin á þakinu og Jólagjöf Skruggu:
Blómin á þakinu Jólagjöf Skruggu
Táknmálstúlkun og textun
Táknmálsaðgengi. Í samstarfi við Ástbjörgu Rut Jónsdóttur og Hraðar hendur táknmálstúlka býður leikhúsið upp á táknmálsaðgengi að ákveðnum leiksýningum, sem auglýstar eru sérstaklega. Boðið verður upp á táknmálstúlkun á barna- og fjölskyldusýningunni Línu Langsokk í sunnudaginn 15. mars kl. 16:30.
Boðið verður upp á textun á 7. sýningu á eftirfarandi verkum:
- Íbúð 10B
- Óresteia
- Ormstunga
- Gæðablóð
Nánar um textun
Tónmöskvar eru í Stóra salnum fyrir heyrnarskerta. Nánari upplýsingar um tónmöskva má fá í miðasölu. Tónmöskvar eru afhentir í veitingasölunni.
Sýningarhald fyrir fólk með sjónskerðingu
Sjónlýst sýning verður á verkinu Íbúð 10b fimmtudaginn 4. desember kl. 20:00
Hafa skal samband við miðasölu til að bóka. Taka þarf fram hversu margir í hópnum ætla að nýta sér sjónlýsingu.
Heyrnatól verða veitt í miðasölu við komu leikhússgesta.
Sjónlýsendur eru Þórunn Hjartardóttir og Guðbjörg Hjartardóttir.
Bílastæði
Bílastæði í nágrenni Þjóðleikhússins eru m.a. við Lindargötu og Sölvhólsgötu. Gjaldfrjálst er í þau stæði eftir kl 18. Stórt bílastæði ráðuneyta á milli Lindargötu og Sölvhólsgötu er opið almenningi á kvöldin og um helgar. Bílastæðahúsin Traðarkot við Hverfisgötu 20, gegnt Þjóðleikhúsinu, og Kolaportið undir Seðlabankanum eru opin til kl. 24:00 alla daga. Bílahús Hörpu er opið allan sólarhringinn.
Sjá nánar um aðgengi hreyfihamlaðra hér að neðan.
Stóra sviðið og Leikhúskjallarinn
Sérmerkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru hægra megin við aðalinngang við Hverfisgötu og þaðan er rampur niður að lyftuhúsi á austurhlið hússins sem opnar 30 mín. fyrir allar sýningar.* Lyftan tengir allar hæðir áhorfendarýmis leikhússins.
Stæði fyrir hjólastóla í Stóra salnum eru hvort sínu megin við 6. bekk (1. hæð).
Veitingaþjónusta er á 1. hæð og á Kristalsal á 2. hæð.
Salerni er á 2. hæð (austan megin) og í Kjallara (þegar komið er niður í Austursal Kjallara, þarf að taka litla lyftu upp á pall).
Stæði fyrir hjólastóla eru ókeypis. Nánari upplýsingar og bókanir hjá miðasölu í s. 551 1200 og á vefnum leikhusid.is.
Ef lyftuhúsið er lokað eða einhver vandamál koma upp er hægt að gera vaktstjóra viðvart. Sími vaktstjóra: 620 1182.
Sjá nánari upplýsingar og myndir hér að neðan.
*Sérmerkt bílastæði eru einnig inn á bílastæðalóð leikhússins, en þau eru aðeins nýtt í undantekningartilfellum og við sérstakar aðstæður. Aðgengi að þeim er um Lindargötu, og að þeim er lokað hlið. Til að nýta þau þarf þess vegna að gera bakdyraverði viðvart og rá inn á bílastæði verður opnuð. Sími bakdyravarðar: 661 1184.
Grunnurinn að Þjóðleikhúsbyggingunni var tekinn árið 1929, á tímum þar sem ekki var hugað að aðgengi fyrir hreyfihamlaða að opinberum byggingum með sama hætti og nú. Á síðari árum hefur verið lögð mikil áhersla á það í Þjóðleikhúsinu að bæta aðgengi fyrir fatlaða, þótt við viljum gera enn betur, og var mikilvægum áfanga náð haustið 2018 þegar nýtt lyftuhús var tekið í notkun fyrir gesti á Stóra sviðinu, og stöðugt er unnið að úrbótum í samvinnu við FSRE.
Við höldum áfram að bæta aðgengið og tökum með ánægju við ábendingum um það sem betur mætti fara í þessum efnum á leikhusid@leikhusid.is eða í miðasölu.
Kassinn og Litla sviðið
Unnið er að endurbótum á aðgengi hreyfihamlaðra að Kassanum og Litla sviðinu, en nú þegar hefur verið komið upp bráðabirgðarampi sem bætir til muna aðgengi að Kassanum.
Kassinn
Sérmerkt bílastæði er fyrir framan aðalinngang Kassans við Lindargötu og þar er rampur inn í húsið.
Salerni er á sömu hæð og svið Kassans (til hægri þegar komið er inn í húsið).
Veitingaþjónusta er jafnframt á sömu hæð.
Stæði fyrir hjólastóla eru í fremstu röð.
Stæði fyrir hjólastóla eru ókeypis. Nánari upplýsingar og bókanir hjá miðasölu í s. 551 1200 og á vefnum leikhusid.is.
Litla sviðið
Litla sviðið er í sama húsi og Kassinn við Lindargötu. Unnið er að úrbótum á aðgengi að Litla sviðinu, en sem stendur er aðgengi fyrir hreyfihamlaða á vesturhlið hússins. Ekið er að húsinu neðan frá Sölvhólsgötu, um bílastæði ráðuneyta, að inngangi inni í horni hússins. (Athugið þó að bílastæði fatlaðra er fjær á bílastæðaplaninu). Hlið er inn á bílastæðið, en hliðið er opið um kvöld og helgar. Vinsamlega hafið samband við vaktstjóra fyrir sýningu á Litla sviðinu í síma 620 1183 til að fá aðstoð starfsfólks leikhússins.
Stæði fyrir hjólastóla er við aftasta bekk. Stæði fyrir hjólastóla eru ókeypis. Nánari upplýsingar og bókanir hjá miðasölu í s. 551 1200 og á vefnum leikhusid.is.
Vinsamlega athugið að ekki er beint aðgengi að salerni úr sal Litla sviðsins sem stendur.
Ef einhver vandamál koma upp er hægt að gera vaktstjóra fyrir Litla sviðið og Kassann viðvart, í síma 620 1183.
Sjá myndir hér að neðan.
Nýtt leiksvið – bætt aðgengi
Í tilefni af 75 ára afmæli leikhússins samþykkti ríkisstjórn Íslands að reisa nýtt sýninga- og æfingarými við Þjóðleikhúsið og mun hið nýja svið geta rúmað um 250-320 gesti. Þetta er í fyrsta sinn frá því að Þjóðleikhúsið var vígt sem nýtt, sérhannað leiksvið er byggt fyrir leikhúsið. Aðgengi að hinu nýja sviði verður mjög gott og sameiginlegt fyrir alla áhorfendur. Sjá nánar hér.