Agnes Wild
Agnes Wild leikstýrir Línu Langsokk í Þjóðleikhúsinu í vetur. Hún leikstýrir hér einnig samstarfsverkefninu Hreiðrinu á vegum Miðnættis. Hún leikstýrði í Þjóðleikhúsinu Grímuverðlaunasýningunni Blómunum á þakinu á síðasta leikári.
Agnes lauk BA námi í leiklist frá East 15 acting school í London árið 2013. Frá útskrift hefur hún starfað sem leikstjóri með áherslu á barnaleikhús. Hún er einn stofnenda leikhópsins Miðnættis sem skapaði barnasýningarnar Á eigin fótum, Tjaldið og Geim-mér-ei. Álfarnir Þorri og Þura eru líka úr smiðju Miðnættis. Miðnætti hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna 2021 fyrir sýninguna Tjaldið en Agnes hlaut einnig tilnefningu sem leikstjóri ársins fyrir þá sýningu. Einnig voru Agnes og Miðnætti tilnefnd árið 2017 fyrir sýninguna Á eigin fótum sem barnasýning ársins og Agnes fyrir dans og sviðshreyfingar.
Meðal annarra leikstjórnarverkefna Agnesar má nefna Á eigin fótum í Þjóðleikhúsinu á vegum Miðnættis (2024) Allra veðra von með Hringleik (2021), Tréð með leikhópnum Lalalab (2020), Karíus og Baktus í Hörpu (2020), Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist með leikhópnum Umskiptingar og MAK, Fokkað í Fullveldinu á vegum fullveldishátíðar og Þjóðleikhússins (2018), Shrek og Legally blonde fyrir Kvennaskólann (2018 og 2017), Krúnk krúnk og dirrindí fyrir Menningarfélag Akureyrar (2018) og Elska með leikhópnum Artik (2016). Árið 2015 var Agnes aðstoðarleikstjóri í sýningunni Í Hjarta Hróa Hattar í Þjóðleikhúsinu.
Agnes hefur skrifað bækur um Þorra og Þuru og barnabókina Súrsæt skrímsli. Hún sér um sjónvarpsþættina Smástund og hefur leikstýrt Stundinni okkar með Bolla og Bjöllu.