Þjóðleikhússtjóri
er stjórnandi leikhússins og forstöðumaður. Hann stýrir stefnumótun og fer með listræna stjórn leikhússins, fer fyrir listráði, vinnur að verkefnavali með verkefnavalsnefnd og ræður helstu listrænu stjórnendur til starfa. Þjóðleikhússtjóri situr í framkvæmdastjórn ásamt þremur framkvæmdastjórum sem hver hefur yfirumsjón með sínu stoðsviði en þau styðja við alla starfsemi leikhússins og bera ábyrgð á rekstri þess með þjóðleikhússtjóra.
Listasvið leikhússins eru tvö: Leikhússvið og Óperusvið.
Stoðsvið leikhússins eru þrjú: Framleiðsla og skipulag, Fjármál og rekstur, Samskipti og upplifun.

Leikhús
Þjóðleikhússtjóri stýrir starfi á leikhússviði. Á Leikhússviði er lögð áhersla á stefnumörkun, listræna stjórnun og stuðning við sviðsetningar leikhússins. Undir leikhússvið heyra leiklistarráðunautar, teymi fastráðinna og verkefnaráðinna listrænna stjórnenda, höfundar, leikarar og annað sviðslistafólk, auk forstöðumanns barna- og fræðslustarfs. Verkefnavalsnefnd starfar á leikhússviði og sinnir verkefnavali.
Ópera
Óperustjóri stýrir starfi á óperusviði. Nánara skipulag sviðsins verður mótað veturinn 2025-2026 þegar fyrsti óperustjórinn hefur verið ráðinn. Á þessu sviði munu starfa söngvarar og listamenn sem starfa við óperuuppsetningar auk listrænna samverkamanna óperustjóra.
Fjármál og rekstur
Á þessu sviði er daglegum rekstri stýrt í samræmi við stefnu og samþykktar áætlanir. Framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar fer með fjármálastjórn, stýrir áætlanagerð og eftirfylgni þeirra, sinnir samskiptum við opinbera aðila og samningagerð ásamt starfsfólki sviðsins. Hann stýrir gæða- og öryggismálum og hefur yfirumsjón með tölvu- og upplýsingatækni.
Samskipti og upplifun
Á þessu sviði eru samskipti og þjónusta við áhorfendur, fjölmiðla og fyrirtæki í forgrunni. Markmið þess er að efla samskipti og samtal leikhússins við samfélagið og gesti leikhússins. Markaðsmál leikhússins heyra hér undir, miðasala, veitingaþjónusta, sala varnings og aðrar sértekjur. Einnig sinnir sviðið innri þjónustu, s.s. húsumsjón, mötuneyti og aðstöðu starfsfólks. Þar starfa, auk forstöðumanns, þjónustu og upplifunarstjóri, kynningarfulltrúi, miðasölustjóri auk starfsfólks í miðasölu, gestamóttöku, veitingasölu og eldhúsi. Framkvæmdastjóri samskipta og upplifunar leiðir einnig húsnæðisþróunarverkefni leikhússins.
- Markaðsdeild ber ábyrgð á öllum samskiptum leikhússins út á við og inn á við hvort sem um er að ræða auglýsingar eða almannatengsl (PR). Deildin ber einnig ábyrgð á ímynd hússins innahúss sem utan.
- Miðasölustjóri heldur utan um miðasölu á alla viðburði leikhússins. Starfsfólk miðasölu og móttöku heyrir undir miðasölustjóra. Miðasölustjóri hefur jafnframt yfirumsjón með samskiptum við gesti leikhússins ásamt hópa- og fyrirtækjasölu.
- Þjónustustjóri stýrir þjónustu leikhússins gagnvart gestum og fer fyrir gestamóttöku og veitingaþjónustu, annarri en þeirri sem mötuneyti leikhússins sinnir dags daglega.
- Mötuneyti sinnir matseld fyrir starfsfólk og veislum leikhússins, t.d. í kringum frumsýningar í samstarfi við Þjónustustjóra.
Framleiðsla og skipulag
Framkvæmdastjóri framleiðslu og skipulags ber ábyrgð á framleiðslu leiksýninga hússins og sér um að samræma skipulag leikhússins í heild sinni vegna æfinga, sýninga og framleiðslu. Hér undir heyra allar framleiðsludeildir leikhússins, auk framleiðslustjóra og sýningastjóra. Á þessu sviði eru framleiðslu- og kostnaðaráætlanir hvers verkefnis unnar.
- Framleiðslustjóri heldur utan um framleiðsluferli leiksýninga hússins, vinnur áætlanir og tryggir eftirfylgni þeirra í samstarfi við framkvæmdastjóra, sýningarstjóra og helstu listrænu stjórnendur hverrar sýningar.
- Sýningastjórar leiða æfingaferli hverrar sýningar og fylgja henni eftir á sýningartíma. Þeir gera æfingaáætlanir og sinna upplýsingamiðlun og flæði innan hverrar uppsetningar.
- Teymisstjóri leikmyndaframleiðslu hefur umsjón með rekstri smíðaverkstæðis og útfærslu og vinnslu leikmynda í samvinnu við leikmyndahönnuði. Við leikmyndaframleiðslu starfa auk teymisstjóra trésmiðir, járnsmiðir, málarar og sviðsmenn.
- Leiksviðsstjóri hefur umsjón með rekstri á öllum sviðum leikhússins, uppsetningu leikmynda, tæknilegum lausnum, leikmyndaskiptingu og viðhaldi á búnaði og öryggisferlum í samstarfi við yfirmann sviðstækni. Leiksviðsstjóri ber ábyrgð á æfingarýmum leikhússins í samstarfi við sýningarstjóra hverju sinni og setur upp æfingaleikmyndir í samstarfi við smíðaverkstæði eftir atvikum. Á sviðsdeild starfa auk sviðsstjóra sviðsmenn og umsjónarmenn á minni sviðum.
- Teymisstjóri leikmunaframleiðslu hefur umsjón með rekstri leikmunadeildar og útfærslu og vinnslu leikmuna í samvinnu við leikmyndahönnuði og eftir tilvikum aðrar deildir. Á leikmunadeild starfa auk deildarstjóra leikmunaverðir, myndlistarfólk og uppfinningamenn.
- Deildarstjóri ljósadeildar hefur umsjón með rekstri ljósadeildar og skipulagi vinnu vegna lýsingar leiksýninga og myndvinnslu. Á ljósadeild starfa auk deildarstjóra ljósahönnuðir, tæknimenn og ljósálfar.
- Deildarstjóri hljóðdeildar hefur umsjón með rekstri hljóðdeildar og skipulagi vegna hljóðmynda og tónlistar fyrir leiksýningar. Á ljósadeild starfa auk deildarstjóra hljóðhönnuðir, hljóðnemaverðir og tæknimenn.
- Deildarstjóri búningadeildar hefur umsjón með rekstri búningadeildar og sér um útfærslu, snið og saumun á búningum. Á búningadeild starfa auk deildarstjóra starfsfólk á saumastofu og þvottahúsi, búningaverðir og töframenn.
- Deildarstjóri leikgervadeildar hefur umsjón með rekstri leikgervadeildar og sér um útfærslu og vinnu við hönnun leikgerva. Á leikgervardeild starfa auk deildarstjóra hárgreiðslumeistarar og hárkollugerðar- og förðunarmeistarar.
Mannauðsstjóri
Mannauðsstjóri mótar stefnu í mannauðsmálum í samráði við helstu stjórnendur og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Mannauðsstjóri stuðlar að góðum starfsanda og framþróun vinnustaðarmenningar leikhússins. Hann veitir ráðgjöf til stjórnenda og starfsmanna, kemur að samningagerð, ráðningum og móttöku nýliða og vinnur að starfsþróunarmálum.
