Benedikt Erlingsson útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1994. Hann hefur leikið fjölda hlutverka á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum, leikstýrt leiksýningum og kvikmyndum og skrifað leikrit og kvikmyndahandrit.
Hann leikur í Ellen B. á Stóra sviði Þjóðleikhússins.
Meðal leikstjórnarverkefna hans í Þjóðleikhúsinu eru Nashyrningarnir, Súper, Húsið, Sólarferð og Íslandsklukkan í eigin leikgerð. Af uppsetningum hans í Borgarleikhúsinu má nefna And Björk of course, Jesú litla, Fyrst er að fæðast, Jeppa á Fjalli, Skáldanótt, Draumleik, Ófögru veröld, Hótel Volkswagen og Sumarævintýri. Benedikt lék meðal annars Galdra-Loft í Óskinni og Vladimir í Beðið eftir Godot í Borgarleikhúsinu. Hann lék í Ormstungu í Skemmtihúsinu og samdi og lék einleikinn Mr. Skallagrímsson í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Kvikmyndir Benedikts Hross í oss og Kona fer í stríð hafa unnið til fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim. Þær hlutu báðar Edduverðlaunin sem besta kvikmynd ársins, auk þess sem Benedikt var valinn leikstjóri ársins. Benedikt hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir báðar myndirnar. Hann hlaut Grímuverðlaunin fyrir leikstjórn sína á Draumleik, Ófögru veröld og Jesú litla, fyrir handrit og leik í Mr. Skallagrímsson og handrit Jesú litla, ásamt leikhópnum, auk þess sem hann hefur hlotið ýmsar tilnefningar fyrir leikstjórn og leik.