fbpx
Unga fólkið

Þjóðleikhús okkar allra

 

Þjóðleikhúsið leggur sérstaka áherslu á að kynna börnum töfraheim leiklistarinnar og auka aðgengi ungs fólks að leikhúsi. Á hverju leikári er fjölda barna og unglinga boðið í leikhús og leikferðir eru farnar um landið.

Þjóðleikur

 

Vettvangur fyrir ungt leikhúsáhugafólk og höfunda til að spreyta sig á list leikhússins. Þjóðleikhúsið veitir þjálfun og fjögur leikskáld skrifa ný verk fyrir unga fólkið sem vinnur að sýningum á þeim í heimabyggð.

Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Á þessu ári verður auk þess gengið til samstarfs við UngRÚV. Markmið verkefnisins er að styrkja leiklistariðkun ungs fólks og auka áhuga þess á leiklist, auk þess að efla íslenska leikritun.

Þau leikskáld sem skrifa fyrir Þjóðleik í þetta skipti eru Álfrún Örnólfsdóttir, Egill Andrason, Hildur Selma Sigbertsdóttir og Matthías Tryggvi Haraldsson. Þessi leikrit verða sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins veturinn 2020-2021. Björn Ingi Hilmarsson er verkefnastjóri Þjóðleiks í Þjóðleikhúsinu, bjorningi (hjá) leikhusid.is.

Leikhúsheimsókn

 

Börnum boðið í leikhús

 

Á hverju hausti býður Þjóðleikhúsið börnum í elstu deildum
leikskóla í heimsókn í leikhúsið með kennurum sínum til að kynnast töfraheimi leikhússins. Með þessu móti vill Þjóðleikhúsið leggja sitt af mörkum til að kynna börnum og ungu fólki heim leikhússins, því að leikhúsferðir geta veitt ungum sem öldnum mikla gleði, örvað þroska og eflt hæfileika okkar til að takast á við lífið og tilfinningar okkar.

 

Leikhúsheimsóknin hefur notið mikilla vinsælda hjá leikskólum og á hverju hausti hafa vel á fimmta þúsund leikskólabörn frá leikskólum á höfuðborgarsvæðinu komið í heimsókn til okkar í leikhúsið.

Að þessu sinni verður boðið upp á hina undurfallegu leiksýningu Ég get. Sýningin heimsækir jafnframt leikskóla víða um land í vetur.

Unglingum boðið í leikhús

 

Á þessu leikári býður Þjóðleikhúsið jafnframt 10. bekkjum grunnskóla í leikhús. Vloggið – nýtt verk eftir Matthías Tryggva Haraldsson verður sýnt víða um land í vetur.

Upplýsingar og fyrirspurnir á ungafolkid (hjá) leikhusid.is.

Skoðunarferðir

 

Þjóðleikhúsið býður uppá skoðunarferðir um leikhúsið fyrir ungt fólk, allt frá leikskólabörnum til háskólanema, þar sem hægt er að kynnast sögu leikhússins og því sem unnið er á bak við tjöldin í tæknideildum. Einnig bjóðum við ungu fólki að koma í starfskynningar og fá þá nánari innsýn í leikhússtarfið.

Frá árinu 2000 hafa komið í Þjóðleikhúsið í skoðunarferðir um það bil 50 hópar á hverju ári og er fjöldi þessara gesta á bilinu 1-2000.

Ef þú óskar eftir því að koma í heimsókn í Þjóðleikhúsið, sendu okkur línu!

 

SENDA PÓST

Leikferðir

 

Það er Þjóðleikhúsinu mikilvægt að ungt fólk á landsbyggðinni geti notið listar óháð búsetu og fjárhag og rækir því þá skyldu sína að vera leikhús allra landsmanna með mikilli ánægju.

Á þessu leikári verða það sýningarnar “Ég get” og “Vloggið” sem fara á leikferð um landið.

Þjóðleikhúsið hefur um árabil farið með barnasýningar í leikferðir um landið til að kynna börnum á landsbyggðinni töfraheim leikhússins. Sýnt hefur verið fyrir börn frá 40-50 bæjarfélögum víðsvegar af landinu og er þetta börnunum að kostnaðarlausu.

Á undanförnum árum hefur meðal annars verið boðið upp á sýningar eins og Lofthræddi örninn hann Örvar, Oddur og Siggi, Brúðuheimar, Ómar orðabelgur og Velkomin heim.

25 ára eða yngri fá fjórar sýningar á aðeins 8.900 kr

 

Við galopnum leikhúsið fyrir ungu fólki og bjóðum fjórar sýningar á aðeins 8.900 kr. Þjóðleikhúsið er okkar allra. Við viljum koma til móts við ungt fólk og gera því kleift að sækja leikhúsið. Því býðst ungu fólki, 25 ára og yngri, leikhúskort á einstöku verði.

Hafðu samband við miðasölu til að kaupa Leikhúskort fyrir ungt fólk.

Aðgengi fyrir Döff börn – Kardemommubærinn

 

Döff börnum verður boðið í sérstaka heimsókn í leikhúsið fyrir sýningu á Kardemommubænum. Upplýsingar um dagsetningu heimsóknarinnar munu birtast á heimasíðu Þjóðleikhússins, Facebook-síðunni Hraðar hendur táknmálstúlkar og deaf.is.

Námskeið fyrir börn og unglinga hjá Chantelle Carey

 

Boðið verður upp á helgarnámskeið í leik, dansi og söng hjá Chantelle Carey í tengslum við sýninguna á Kardemommubænum, fyrir 7-15 ára.

Opnunartími miðasölu

virka daga frá klukkan 14 til 18 og til 20 á sýningardögum.
Um helgar er opið 11 til 20.

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími