Aspas
Aspas er í senn bráðfyndið og sársaukaþrungið verk frá árinu 2010 eftir rúmenska leikskáldið Gianina Cărbunariu, sem vakið hefur mikla athygli. Umfjöllunarefni verksins er mismunun og fordómar, mannleg samskipti og geymsluþol grænmetis í skugga verslunar og viðskipta á öld þjóðflutninga og tækifæra, offramboðs og ójöfnuðar.
Tveir karlmenn, eldri borgari, leikin af Eggerti Þorleifssyni og erlendur farandverkamaður, leikin af Snorra Engilbertssyni, rekast hvor á annan við grænmetisborðið í stórri lágvöruverðsverslun. Þeir gefa hvor öðrum auga. Þeir hugleiða líf sitt. Svo koma nýjustu tilboðin.
Aðgangur að sýningunni er ókeypis, en bóka þarf miða. Sýningar eru á opnunartíma Krónunnar, en áhorfendur fylgjast með hljóðheimi verksins í gegnum heyrnartól sem þeir fá á staðnum, gegn framvísun aðgöngumiða.
Athugið að aðeins 20 – 25 gestir komast á hverja sýningu.
Sýningin, sem er fyrsta leikstjórnarverkefni leikkonunnar Guðrúnar S. Gísladóttur, verður sviðsett í Krónunni á Granda. Mörkin milli flytjenda og áhorfenda, leikhúsgesta og neytenda verða óljós og útkoman er leikhús þar sem allt getur gerst!
Ókeypis er á sýninguna en hver gestur þarf að fá heyrnatól svo það er mikilvægt að bóka sér pláss.
Leikarar
Listrænir stjórnendur
Framleiðandi og markaðsmál: Sigríður Ásgeirsdóttir.
Ljósmyndir: Sara Sig.
Vinnsla búninga: Berglind Einarsdóttir.
Raddir : Vera Illugadóttir og Atli Rafn Sigurðarson.
Aðstoðarmaður Filippíu I. Elísdóttur: Luka S.S. Harðarson
Ráðgjöf við gervi: Tinna Ingimarsdóttir.
Sérstakar þakkir: Nordiska International Performing Rights Agency og Sviðslistasjóður.
Verkefnið er styrkt af Menningarráðuneytinu úr Sviðslistasjóði.
Styrktaraðili: Krónan.
Umheimur í samstarfi við Þjóðleikhúsið.
Um höfundinn
Gianina Cărbunariu fæddist 1977 í borginni Piatra Neamț í fögru umhverfi Karpatafjalla; þetta er borg á stærð við Reykjavík. Þar ólst hún upp og lifði endalok Ceaușescu-tímans og rósturnar eftir hrun kommúnismans. Hún fór síðan í háskólanám í höfuðborginni București og lauk prófi í skriftum og leikhúsfræðum frá skóla sem kenndur er við rúmenska leikskáldið Ion Luca Caragiale. Hún lauk raunar doktorsprófi frá þeim skóla árið 2011.
Cărbunariu var þá löngu farin að fást bæði við leikstjórn og skriftir. Geta má þess að eitt af fyrstu verkunum sem hún setti upp var Numele meu Isbjorg, leikgerð Hávars Sigurjónssonar eftir skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Leikritið var sett upp í Studioul Casandra í höfuðborginni árið 2003.
Snemma bar á því að Cărbunariu kaus helst að setja sjálf upp sín eigin verk og sömuleiðis að hún valdi sér yrkisefni yfirleitt beint úr samtímanum. Hún var og ósmeyk við að takast á við umdeild og jafnvel rammpólitísk efni. Leikritið Aspas er dæmi um það en það var frumflutt í Volkstheater í Vínarborg árið 2010 og tókst á við mjög vaxandi straum farandverkamanna frá heimalandi hennar Rúmeníu vestur í „allsnægtir“ Vestur-Evrópuríkjanna; Bretlands í því tilfelli.
Tveim árum seinna vakti annað leikrit eftir hana, 20/20, heilmikla athygli og fékk verðlaun á alþjóðlegri leikhúshátíð í London en það fjallaði um miklar róstur Ungverja og Rúmena í Rúmeníu við hrun kommúnismans og var flutt af bæði ungverskum og rúmenskum leikurum.
Leikrit hennar eru gjarnan byggð á rannsóknum á nýliðnum atburðum og allt hið listræna teymi tekur fullan þátt í þeim umræðum og þeirri sköpun sem af rannsókninni spretta. Leikararnir hafa síðan töluvert frelsi til að túlka það sem að þeim snýr.
Undanfarin áratug hafa verk Cărbunariu verið fastagestir á hinum merkustu leikhúshátíðum í Evrópu og verið sett upp í flestum Evrópuríkjum og ýmsum löndum utan álfunnar. Þá skrifaði Cărbunariu handrit merkilegrar heimildarmyndar er nefnist á ensku Uppercase Print og fjallar um ungan graffítílistamann sem skar á sinn hátt upp herör gegn stjórn Ceaușescu á sínum tíma. Handritið skrifaði hún ásamt leikstjóranum Radu Jude sem þykir einn hinn merkasti í Rúmeníu nú um stundir.
Hún er nú leikstjóri í heimaborginni Piatra Neamț auk þess að þeytast um álfuna og skrifa, skoða, leikstýra og rökræða.
Framlag útlendinga er mikið
Framlag útlendinga, bæði innflytjenda og þeirra sem staldra skemur við, til íslensks samfélags, er afar mikið. Það hefur ekki enn verið gerð alvarleg tilraun til að meta það til fjár, en það er óhætt að segja þetta: Það er mikið.
Opnun vinnumarkaðarins, og þar með aukin þátttaka útlendinga, hefur gert atvinnulífinu kleift að bregðast mun betur við sveiflum en áður, og einstaka fyrirtæki hafa geta vaxið miklu hraðar en ella væri hægt. Heilu atvinnugreinarnar væru ekki nema svipur hjá sjón án útlendinga, þar á meðal ferðaþjónustan og byggingariðnaðurinn.
Útlendingar eru þó ekki bara í slíkum störfum, sem eru alla jafna ekki mjög vel launuð, heldur hefur líka fjölmargt hámenntað fólk flust til landsins í betur launuð störf. Alvotech og Háskólinn í Reykjavík hafa t.d. mjög reitt sig á slíka útlendinga.
Þá skiptir líka máli að flóðbylgjan inn í landið hefur breytt verulega aldurssamsetningunni — þeir sem koma eru yfirleitt á þrítugsaldri, ekki mikið eldri, og það vegur verulega upp á móti öldrun þeirra sem fyrir voru.
Gylfi Magnússon, prófessor og fyrrverandi ráðherra
Er gamla fólkið þurfalingar?
Fólk á eftirlaunaaldri á Íslandi í dag telur rúmlega 50.000 manns.
Þetta er fólkið sem fæddist í og upp úr kreppunni, þraukaði af umrót seinni heimsstyrjaldarinnar og byggði upp þjóðfélagið, frá örbirgð til allsnægta. Þetta er fólkið sem fær á sig niðrandi stimpla eins og fráflæðisvandi; vandi sem er í rauninni ekkert annað en kerfisvandi sem núverandi stjórnvöld bera fulla ábyrgð á — allt önnur kynslóð.
Þetta er fólkið sem talað er um af óvirðingu sem þurfalinga og bagga á þjóðfélaginu.
Þetta er þó fólkið sem borgar hæstu skattprósentuna af litlum launum sínum til þjóðfélagsins í formi alls kyns skerðinga og jaðarskatta.
Þetta er fólkið sem greiðir marga tugi milljarða til nærsamfélags síns í formi útsvars, sem er svo mikilvægt framlag að sum sveitarfélög væru ekki á vetur setjandi án þessa fólks, enda mun hærri upphæð en þetta sama fólk kostar þessi sömu samfélög. Þau eru enn miklu meira en sjálfbær, þetta fólk.
Þetta er fólkið sem er úthrópað sem ógn við þjóðfélagið af því að því fer fjölgandi. Þó er íslenska þjóðin sú yngsta í Evrópu og verður svo á næstu árum.
Þetta er fólkið sem fer síðast allra í Evrópu, ásamt norskum eldri borgurum, á eftirlaun. Aðeins í þessum tveimur löndum er eftirlaunaaldur almennt 67 ár, sá hæsti í Evrópu. Við höfum ekki efni á að fara illa með þetta fólk. Við höfum ekki efni á öðru en að gera þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Þau geta ekki beðið. Hefjumst strax handa. Þau eiga það inni hjá okkur.
Viðar Eggertsson, leikstjóri og varaþingmaður