/
/

Viltu taka þátt í skemmtilegum leikprufum?

Við leitum að tólf krökkum til að leika sex persónur í sýningunni Draumaþjófurinn og hvetjum alla krakka sem hafa áhuga til að taka þátt í leikprufunum. Þjóðleikhúsið leggur áherslu á að endurspegla sem best fjölbreytileika samfélagsins og við tökum fagnandi á móti börnum af öðrum uppruna en íslenskum.

Skoðaðu myndbandið hér fyrir neðan til að fá allar upplýsingar um hvernig þú tekur þátt. Svo takið þið upp þrjú stutt myndbönd á símann og sendið inn í gegnum skráningarformið hér fyrir neðan.

Síðasti skiladagur er sun. 20. nóvember!

Og munið: Aðalatriðið er að hafa gaman af þessu! Það er allt í lagi þótt þú náir ekki öllum danshreyfingunum eða kunnir ekki textann alveg nákvæmlega. Túlkunin og leikgleðin skiptir mestu máli!

Ef þú, af einhverjum ástæðum, getur ekki flutt dansrútínuna, textann eða lagið, þá máttu sýna okkur eitthvað annað að eigin vali – svo lengi sem upptakan þín taki ekki nema 45 – 60 sek.

ATH! LOKAÐ HEFUR VERIÐ FYRIR INNSENDINGAR

Nánar um Draumaþjófinn

 

 

Gott að vera rotta

Já, það er gott að vera rotta, gott að vera rotta
flott að vera svona agnarlítið rottuskott
já, það er gott að vera rotta, gott að vera rotta
flott að vera svona pínulítið rottuskott
með feitan maga og fallegt skott
og fegurst allra rotta.
Draumasmiður allra,
stjórnar Draumanótt.
Skirilibammbúmmbó.

/

Skref #3 –  lærið leiktextann

LEIKTEXTI FYRIR BÖRN

Á Draumanóttinni fæ ég loksins að vita hvað ég á að verða.

Það væri geggjað að vera Étari, því þau eru svo mikið aðal. En þá þarf ég að éta allan daginn og get ekkert leikið mér.

Nei, oj bara!

Og ég vil alls ekki verða Safnari og þurfa að leita að mat í klóakinu alla daga.

Ógeðslegt!

Og ég vil alls ekki verða Bardagarotta. Það er svo hættulegt og ég vil ekki deyja!

En vitið þið bara hvað? Mig langar að verða Njósnari og vera ógeðslega kúl með svona njósnara-gleraugu !

(Þú setur upp njósnara-gleraugu og gerir nokkrar kúl njósnara-stellingar. Svo heyrir þú allt í einu eitthvert óvænt hljóð og bregður mjög mikið.)

AH! Hvað var þetta? Ég verð að fela mig!

Það styttist í að ævintýrið hefjist

Draumaþjófurinn er glænýtt íslenskt leikverk byggt á bók Gunnars Helgasonar sem hrífur bæði börn og fullorðna. Æsispennandi þroskasaga, með litskrúðugum og skemmtilegum persónum, þar sem tekist er á við margt sem skiptir okkur svo miklu máli í dag. Sagan birtist hér í sannkallaðri stórsýningu með grípandi lögum, miklu sjónarspili og óviðjafnanlegum dansatriðum. Sýningin verður frumsýnd á Stóra sviði Þjóðleikhússins í byrjun mars 2023

Í Draumaþjófnum hverfum við inn í litríkan, spennandi og stórhættulegan söguheim sem á engan sinn líka! Hetjan okkar hún Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís – eða bara Eyrdís – þarf að taka á öllu sínu og uppgötva hugrekkið innra með sér þegar líf hennar umbreytist á svipstundu.

Í Hafnarlandi er allt eins og það á að vera og rotturnar þekkja sinn sess í lífinu: Safnarar safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Efst í virðingarstiganum gnæfir Skögultönn foringi sem öllu ræður.

En daginn sem Eyrdís dóttir Skögultannar gerir uppreisn tekur sagan óvænta stefnu. Rottuprinsessan litla neyðist til að flýja inn í Borgina þar sem hættur eru á hverju strái og framandi rottur leika lausum hala. Sjálfur Draumaþjófurinn er sendur til að bjarga henni – eða til að deyja!

Nánar um sýninguna

 

Listræna teymið

Það er sannkallað stórskotalið listrænna stjórnenda sem stendur að baki Draumaþjófnum.

Leikstjórn: Stefán Jónsson
Höfundur bókar: Gunnar Helgason
Leikgerð: Björk Jakobsdóttir
Tónlist og tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Dansar og sviðshreyfingar: Lee Proud
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: María Ólafsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Fyrirkomulag vegna þátttöku barna í prufum og sýningum í Þjóðleikhúsinu 

Upplýsingar fyrir forráðamenn barna sem hyggjast taka þátt í leikprufum fyrir þátttöku í leiksýningunni Draumaþjófnum.

Nánar um fyrirkomulag

Hafir þú einhverjar spurningar er þér velkomið að senda okkur fyrirspurn á prufur@leikhusid.is.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími