14. Okt. 2020

Upprunalegur stíll endurvakinn í forsal Þjóðleikhússins

Vegna fréttaflutnings um endurbætur vill Þjóðleikhúsið koma eftirfarandi á framfæri:

Í tilefni af 70 ára afmæli Þjóðleikhússins var ákveðið að hefjast handa við tímabærar endurbætur á áhorfendarými leikhússins. Framkvæmdir sneru annars vegar að því að færa hluta húsnæðis í upprunalegt horf og hins vegar að bæta aðstöðu leikhúsgesta við komu á sýningar í þessu sögufræga og friðlýsta húsi, allt í anda Guðjóns Samúelssonar. Þannig var höfundaverk Guðjóns heiðrað á sama tíma og aðgengismál og þjónusta við leikhúsgesti var fært að nútímakröfum. Jafnframt var útilýsing bætt þannig að þessi sögufræga bygging njóti sín að kvöldlagi.  

Verkefnið er stutt með sérstökum styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er unnið í nánu samstarfi við Ríkiseignir, sem og arkitekta á Teiknistofu Garðars Halldórssonar húsameistara sem hafa í gegnum árin komið að endurbótum og viðbyggingum leikhússins. Helst er um er að ræða smíði á innréttingum og lausum húsgögnum, sem endurvekja upprunalegan glæsileika byggingarinnar. Teikningar og ásýnd innréttinga voru unnar í samtali við Minjastofnun, sem fagnaði sérstaklega hugmyndum um flutning miðasölu  á upphaflegan stað í miðju anddyris og veitti verkefninu jákvæða umsögn út frá varðveislu- og friðlýsingarsjónarmiðum. Í umsögn Minjastofnunar segir m.a. “Minjastofnun hefur yfirfarið og samþykkt verkteikningar að fatahengi í hliðargangi anddyris Þjóðleikhússins og sannreynt á staðnum að uppsetning þess raskar hvorki máluðum veggflötum né gólfefnum rýmisins. Sömuleiðis hefur Minjastofnun yfirfarið og samþykkt teikningar að barborðum í innri forsölum. Breytingin er afturkræf og snertir ekki málaða veggfleti. Fatahengin í forsal sem nú verða aflögð voru hluti af breytingum sem gerðar voru á leikhúsinu um 1990 og eru ekki hluti af upphaflegri gerð þess. Við hönnun breytinga í anddyri og forsal var leitast við að varðveita og styrkja upphaflegan tíðaranda og stíl leikhússins og er mat Minjastofnunarþað hafi tekist. Í umsögn Minjastofnunar kom einnig fram að Húsafriðunarnefnd gerði ekki athugasemdir. 

Vinnsla fullbúinna gagna til byggingarfulltrúa vegna þessara og annarra smærri viðhaldsverkefna í bakrýmum leikhússins hafði því miður tafist, en er nú komin í réttan farveg hjá byggingarfulltrúa.  Þjóðleikhúsið hefur fundið fyrir mikilli ánægju með að þessari merku byggingu sé sýndur sómi með endurbótum og við hlökkum til að sjá áhorfendur njóta þeirra á komandi árum.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími