Unnið að mótun sviðslistastefnu
Í dag var haldinn opinn fundur um mótun sviðslistastefnu í Kjallaranum í Þjóðleikhúsinu. Markmið fundarins var að laða fram hugyndir um framtíðarsýn í sviðslistum og helstu áherslur. Sviðslistastefnan mun endurspegla þá sýn og verða þannig leiðarljós í geiranum inn í framtíðina. Bjarni Snæbjörn Jónsson, sérfræðingur í stefnumótun og einn stofnenda DecideAct A/S leiddi umræður.
Það var fyrr á þessu ári sem vinna hófst við mótun opinberrar stefnu í sviðslistum á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Opinber stefna í sviðslistum hefur ekki verið unnin áður sem heildrænt fyrirbæri og er verkefninu skipt í nokkra áfanga. Markmiðið er að að meta stöðu og möguleika sviðslistafólks og stofnana í sviðslistum, skapa skýra framtíðarsýn og móta stefnu hins opinbera í sviðslistum til skemmri og lengri tíma.
Unnið hefur verið í samtali við fagfólk í sviðslistum en starfshópur um verkefnið hefur fundað nokkrum sinnum og hitt rýnihópa.