16. Jún. 2021

Umskiptingur. Nýtt barnaleikrit eftir Sigrúnu Eldjárn sýnt í Þjóðleikhúsinu

Það er alltaf gleðifregn þegar nýtt íslenskt barnaleikrit ratar á fjalir leikhúsanna og ekki er það verra að verkið sé eftir einn af vinsælustu höfundum barnaefnis á umliðnum áratugum, Sigrúnu Eldjárn. Í verkinu Umskiptingur bregður hún á frumlegan og sniðugan hátt á leik með minnið um umskiptinga úr þjóðsögunum okkar.

 

  • Leikritið var valið úr 150 leikverkum sem bárust þegar Þjóðleikhúsið kallaði eftir leikritum og hugmyndum að leikritum fyrir börn. 
  • Ragnhildur Gísladóttir semur tónlistina en meðal fyrri barnaverka sem hún hefur samið tónlist fyrir eru Píla Pína og Glámur og Skrámur í Sælgætislandi. 
  • Sara Marti leikstýrir verkinu en þar er brugðið á leik með minnið um umskiptingana úr þjóðsögunum

Allt frá því að fyrsta bók Sigrúnar, Allt í plati, kom út árið 1980) hefur hún fléttað texta og myndir saman í bókum sínum á allan mögulegan máta og oft mjög frumlega. Þetta er í annað sinn sem verk Sigrúnar ratar á fjalir Þjóðleikhússins en sýningin Kuggur og leikhúsvélin var sett upp árið 2014 og naut mikillar hylli.

Sara Marti mun leikstýra Umskiptingi en hún hefur komið víða við frá því að hún útskrifaðist sem leikari úr Listaháskólanum árið 2007. Sara hefur leikið bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og látið til sín taka í sjálfstæðu senunni. Sara lagði stund á leikstjórn í The Royal Central School of Speech and Drama í London og útskrifaðist þaðan árið 2010.

Það er svo engin önnur en Ragnhildur Gísladóttir sem mun semja tónlistina við verkið eins og henni einni er lagið.

Þjóðleikhúsið auglýsti á síðasta ári eftir handritum eða vel útfærðum hugmyndum að barnaleikritum til að efla starfsemi leikhússins í þágu barna og hvetja til ritunar nýrra, íslenskra barnaleikrita. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem auglýst var eftir barnaleikritum með þessum hætti og viðbrögðin létu sannarlega ekki á sér standa. Alls bárust 150 umsóknir.

Ævintýralegt leikrit um tröll og menn, ofurhetjur, smákríli og dreka 

Í Umskiptingi segir frá systkinunum Sævari og Bellu. Einu sinni sem oftar þarf Sævar að gæta litlu systur sinnar, sem satt að segja getur verið alveg ferleg frekjudolla! En Bella er alveg einstaklega krúttleg og þegar tröllskessa með óslökkvandi fegurðarþrá sér hana ákveður hún að skipta á henni og hinum stórgerða, uppátækjasama og hjartahlýja syni sínum, tröllastráknum Steina. Nú eru góð ráð dýr, en í ljós kemur að hjálpar má vænta úr ólíklegustu áttum!

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími