25. Feb. 2021

Þjóðleikhúsið kallar eftir nýjum leikverkum

Þjóðleikhúsið vill efla leikritun á Íslandi og segja sögur sem eiga brýnt erindi við okkur. Auglýst er eftir nýjum leikverkum, hvort heldur fullbúnum verkum eða vel útfærðum hugmyndum til þróunar innan leikhússins. Að þessu sinni er lögð sérstök áhersla annars vegar á frumsamin leikverk eftir konur og hins vegar verk sem fjalla með einhverjum hætti um fjölbreytileika og fjölmenningu. Það útilokar á engan hátt önnur áhugaverð verk eða hugmyndir.  

Þjóðleikhúsið stendur fyrir öflugu höfundastarfi með það að markmiði að efla leikritun á Íslandi. Við tökum til skoðunar hugmyndir og handrit á öllum vinnslustigum og vinnum markvisst með leikskáldum frá fyrstu hugmynd til fullbúinna verka. 

Á síðasta leikári kallaði Þjóðleikhúsið eftir barnaleikritum og keypti sýningarréttinn að tveimur af þeim 150 verkum sem bárust, auk þess sem sex önnur voru valin til áframhaldandi vinnslu og skoðunar. Einnig var kallað eftir nýjum íslenskum verkum til flutnings í Hádegisleikhúsinu og bárust 247 ný íslensk verk. Fjögur þeirra voru valin til sýninga, auk þess sem leikhúsið tryggði sér sýningarrétt á þremur verkum til viðbótar. 

Óskað er eftir handritum í fullri lengd eða vel útfærðum hugmyndum að leikritum, með sýnishorni af leiktexta. Stutt lýsing á verkinu, 1-2 bls., skal fylgja, þar sem fram kemur persónufjöldi, atburðarás og ætlunarverk höfundar. Einnig skal fylgja stutt ferilskrá höfundar. Höfundar af öllum kynjum og mismunandi uppruna eru hvattir til að senda inn leikverk. Höfundarlaun fyrir fullbúin verk eða hugmyndir í þróun verða greidd samkvæmt samningi Þjóðleikhússins við Rithöfundasamband Íslands. 

Nánari upplýsingar á leikritun@leikhusid.is. Umsóknarfrestur er til og með þri. 6. apríl 2021.

VINSAMLEGA ATHUGIÐ AÐ UMSÓKNARFRESTUR ER LIÐINN EN ÁVALLT ER HÆGT AÐ SENDA ÞJÓÐLEIKHÚSINU LEIKRIT OG HANDRITSHUGMYNDIR:
SJÁ NÁNAR HÉR

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími