31. Ágú. 2023

Þjóðleikhúsið frumsýnir Ást Fedru eftir Söruh Kane

Þjóðleikhúsið frumsýnir Ást Fedru eftir Söruh Kane í Kassanum laugardaginn 9. september en það er jafnframt frumflutningur verksins á Íslandi. Í aðalhlutverkum eru Margrét Vilhjálmsdóttir, sem snýr aftur á svið Þjóðleikhússins eftir nær tíu ára fjarveru, og Sigurbjartur Sturla Atlason. Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrir verkinu, og er það frumraun hennar í Þjóðleikhúsinu. Sarah Kane er eitt áhrifamesta breska samtímaleikskáldið.

Kaupa miða

Sarah Kane (1971-1999) er eitt áhugaverðasta leikskáld síðari tíma og verk hennar höfðu afgerandi áhrif á leikritun í heiminum og eru orðin sígild. Þau hafa í senn heillað fólk og gengið fram af því, eru hrá, hugvitssamleg, fyndin og full af sprengikrafti. Leikritið Ást Fedru er nú frumflutt á íslensku leiksviði. 

Ást Fedru er byggt á goðsögninni um drottninguna Fedru sem verður ástfangin af stjúpsyni sínum Hippolítosi, með skelfilegum afleiðingum. Verkið talar beint inn í samtímann og veltir upp ágengum spurningum um ofbeldi, mörk, sannleika, þrá, fyrirlitningu og aðdráttarafl myrkursins. 

  Margrét Vilhjálmsdóttir gengur nú á ný til liðs við Þjóðleikhúsið, í hlutverki Fedru. Aðrir leikarar eru Sigurbjartur Sturla Atlason, Þuríður Blær Hinriksdóttir, Hallgrímur Ólafsson og Þröstur Leó Gunnarsson. Leikstjóri er Kolfinna Nikulásdóttir en hún nálgast gróteskan efniviðinn á ferskan hátt og varpar óvæntu ljósi á fegurð mannskepnunnar í kraftmikilli uppfærslu. Kolfinna leikstýrði meðal annars óperunni KOK og er höfundur leikritsins The Last Kvöldmáltíð.

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími