Súper eftir Jón Gnarr frumsýnt
Bráðfyndið nýtt leikrit í leikstjórn Benedikts Erlingssonar
Þjóðleikhúsið frumsýnir Súper – þar sem kjöt snýst um fólk, nýtt og bráðfyndið leikrit eftir Jón Gnarr, laugardaginn 16. mars í Kassanum. Benedikt Erlingsson leikstýrir verkinu en þeir Jón Gnarr hafa nokkrum sinnum áður leitt saman hesta sína með frábærum árangri.
Fólk hittist í stórmarkaði og á í einlægum samræðum – eða er það bara að tala við sjálft sig? Bjössi og Gugga eru hjón utan af landi. Guðrún og Einar eru ung hjón úr Reykjavík. Í versluninni Súper hitta þau Hannes sem hefur misst föður sinn. Eða er faðir hans kannski enn á lífi? Aðdráttarafl Súper er ótvírætt í hugum fólksins sem þar verslar. Verslun þar sem allt fæst. Glænýr lax úr 100% lífrænu svínakjöti, ferskir kjúklingastrumpar úr nýslátruðu grísakjöti og hinir sívinsælu hunangsmarineruðu og hægsvæfðu spenagrísir á teini.
Leiðir þeirra Jóns Gnarrs og Benedikts Erlingssonar hafa áður legið saman víða í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsi í gegnum árin. Má þar nefna að þeir léku saman í hinum geysivinsælu Fóstbræðraþáttum sem fyrst fóru í loftið fyrir rúmum tuttugu árum, árið 1997. Benedikt leikstýrði árið 1998 einþáttungi eftir Jón Gnarr sem bar heitið Góð kona og var sýndur í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Benedikt leikstýrði leikritinu Erling sem Jón Gnarr lék í. Verkið var frumsýnt árið 2003 og naut mikilla vinsælda, en var sýnt bæði í Reykjavík og norðan heiða, í samstarfi Leikfélags Akureyrar og Sagnar ehf. Fyrsta leikritið eftir Jón Gnarr sem Benedikt leikstýrði var Hótel Volkswagen sem Borgarleikhúsið sýndi á Stóra sviðinu árið 2012. Jóni Gnarr brá nú síðast fyrir í margverðlaunaðri kvikmynd Benedikts, Kona fer í stríð.
Jón Gnarr leikur sjálfur í sýningunni en auk hans fara ýmsir valinkunnir leikarar með hlutverk í sýningunni, þau Arnmundur Ernst Backman, Snæfríður Ingvarsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Edda Björgvinsdóttir og Eggert Þorleifsson.
Höfundur leikmyndar er Gretar Reynisson, Filippía I. Elísdóttir gerir búninga, lýsingu hannar Jóhann Friðrik Ágústsson og hljóðmynd er í höndum Arons Þórs Arnarssonar.
Sjá leikskrá sýningarinnar hér .