25. Ágú. 2019

Söng- og leiklistarskólinn Sönglist flytur í Þjóðleikhúsið

  • Sönglist barnalist

Söng- og leiklistarskólinn Sönglist hefur nú flutt starfsemi sína yfir í Þjóðleikhúsið. Skólinn hefur verið starfræktur á ólíkum stöðum allt frá árinu 1998, og hefur námið þar notið mikilla vinsælda meðal barna og unglinga allt frá fyrstu tíð. Kennsla mun fara fram í Dómhúsinu, æfingarhúsnæði Þjóðleikhússins við Lindargötu 3, en nemendasýningar verða í Kassanum.

Hjá Sönglist starfa um fjörutíu kennarar, leiklistarkennarar, söngkennarar, danskennarar og aðstoðarkennarar. Námið er ætlað börnum og unglingum á aldrinum 8-16 ára og er skipt í hópa eftir aldri. Námið er annaskipt og spannar 12 vikur. Kennt er einu sinni í viku tvo klukkutíma í senn, klukkustund í söng og klukkustund í leiklist. Í Listhópum er einnig klukkustundar langur danstími vikulega. Hverri önn lýkur með veglegum nemendasýningum. Nánari upplýsingar um starfsemi skólans er að finna hér.

Það er Þjóðleikhúsinu mikið ánægjuefni að fá Sönglist til samstarfs við sig, enda hefur Þjóðleikhúsið alla tíð lagt mikla rækt við barnasýningar og leikhúsuppeldi. Námskeiðahald fyrir börn bætist nú í fjölbreytta flóru starfsemi leikhússins fyrir börn.

Þjóðleikhúsið setur upp stórsýningar fyrir börn á Stóra sviðinu og minni barnasýningar í Kúlunni, á Leikhúsloftinu og í Leikhúskjallaranum. Frá árinu 2013 hefur einnig starfað sérstakt brúðuleikhús á Brúðuloftinu. Þjóðleikhúsið hefur nú um árabil boðið upp á Sögustund fyrir leikskólabörn, boðssýningu þar sem leikskólanemar koma ásamt kennurum sínum í heimsókn og kynnast töframætti leikhússins. Þjóðleikhúsið fer einnig í leikferðir út á landsbyggðina með boðssýningar fyrir börn og unglinga, svo ungt fólk á landsbyggðinni geti notið listar óháð búsetu og fjárhag. Þjóðleikhúsið er jafnframt aðili að leiklistarverkefninu Þjóðleik. Fjöldi skólahópa sækir einnig leikhúsið heim og fer í skoðunarferðir um húsið, auk þess sem nemendur koma í starfskynningar.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími