21. Ágú. 2019

Birgir Sigurðsson leikskáld jarðsunginn

Eitt fremsta leikskáld Íslendinga, höfundur Dags vonar, Dínamíts, Skáld-Rósu og fleiri leikrita

Í dag verður Birgir Sigurðsson (28.8.1937 – 9.8.2019) rithöfundur og eitt fremsta leikskáld Íslendinga jarðsunginn frá Dómkirkjunni. Þjóðleikhúsið sendir fjölskyldu Birgis innilegar samúðarkveðjur og þakkar fyrir gjöfult samstarf og fyrir framlag hans til íslenskrar leiklistar.

Þrjú af leikritum Birgis voru sýnd í Þjóðleikhúsinu, Grasmaðkur árið 1983 í leikstjórn Brynju Benediktsdóttur, Óskastjarnan árið 1998 í leikstjórn Hallmars Sigurðssonar og Dínamít árið 2005 í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.

Fyrsta leikrit Birgis, Pétur og Rúna, var sett á svið árið 1973 í leikstjórn Eyvindar Erlendssonar hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó. Leikritið vann til fyrstu verðlauna, ásamt Kertalogi Jökuls Jakobssonar, í leikritasamkeppni LR í tilefni af 75 ára afmæli félagsins árið 1972. LR sýndi jafnframt leikritin Selurinn hefur mannsaugu í leikstjórn Eyvindar Erlendssonar árið 1974 og Skáld-Rósu í leikstjórn Jóns Sigurbjörnssonar árið 1977. Dagur vonar, sem telja má ástsælasta leikrit Birgis, var frumsýnt hjá LR árið 1987 í leikstjórn Stefáns Baldurssonar og tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1989. Leikritið var sviðsett að nýju í Borgarleikhúsinu árið 2007 í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar og hlaut sýningin Grímuverðlaunin. Síðasta leikrit Birgis, Er ekki nóg að elska? var frumsýnt í Borgarleikhúsinu árið 2015 í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar.

Leikrit Birgis hafa verið sett upp af áhugaleikfélögum víða um land en einnig í leikhúsum í London, Þórshöfn í Færeyjum, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Álaborg, Los Angeles og Vasa í Finnlandi. Dagur vonar var tekið upp af Ríkissjónvarpinu árið 1988 í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar.

Birgir hóf rithöfundarferil sinn árið 1968 með ljóðabókinni Réttu mér fána og á ferli sínum sendi hann frá sér ritverk af ólíkum toga. Af öðrum verkum hans má nefna ljóðaflokkinn Á jörð ertu kominn við tónlist eftir Gunnar Reyni Sveinsson, smásagnasafnið Frá himni og jörðu (1989), skáldsögurnar Hengiflugið (1993) og Ljósið í vatninu (2000) og fræðiritin Svartur sjór af síld (1989) og Korpúlfsstaðir (1994). Þá skrifaði Birgir handrit að þremur heimildamyndum fyrir Ríkissjónvarpið, Korpúlfsstaðir (1986), Svartur sjór af síld (1991) og Endurreisnin og almúginn (2001) og hafði umsjón með gerð þeirra. Hann fékkst einnig við þýðingar og þýddi meðal annars leikritin Barn í garðinum eftir Sam Shepard, Algjört rugl eftir Christopher Durang, Glerbrot eftir Arthur Miller og Kött á heitu blikkþaki eftir Tennessee Williams. Einnig þýddi hann skáldsögurnar Grasið syngur og Martha Quest eftir Doris Lessing og Langferð Jónatans eftir Martin A. Hansen.

Birgir var varaformaður Rithöfundasambands Íslands 1982-1986 og var á þessu ári gerður að heiðursfélaga sambandsins. Hann var forseti BÍL 1985-87 og sat í stjórn Listahátíðar og úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs. Hann var heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur.


Árið 2000 setti Birgir niður á blað eftirfarandi texta um minningu tengda Þjóðleikhúsinu að ósk leikhússins, í tilefni af hálfrar aldar afmæli Þjóðleikhússins:

Birgir Sigurðsson: Lífsreynsla í Þjóðleikhúsinu

Þegar ég var átján eða nítján ára átti ég kunningja í Kópavogi. Hann var að byggja og ég hjálpaði honum stundum. Þetta var maður um þrítugt og hafði menntast í Ameríku. Ég var byrjaður að fást við skriftir og við töluðum og rifumst um skáldskap og listir. Á þessum árum hafði ég engan áhuga á leikritum eða leikhúsi. En snemma á sunnudagsmorgni drap þessi maður óforvarindis á dyr hjá mér og rétti mér bók: “Þetta er fyrir þig. Þú mátt eiga hana,” sagði hann næstum snúðugur og var farinn áður en ég gat þakkað honum gjöfina.

Bókin nefndist “Nine Plays by Eugene O’Neill”.

Ég stautaði mig fram úr þessum leikritum. Þau fylltu mig djúpum óróleika og settust síðan að í mér. En ég gat ekki rætt um þau við gefandann því það hafði slitnað upp úr kunningsskap okkar. Ég ræddi þau ekki við neinn. Það var líkt og ég þyrfti að eiga þessi leikrit sem leyndarmál. Og þau vöktu ekki með mér áhuga á því að sækja leikhús. Ég sá þó tvær eða þrjár sýningar um þetta leyti en þær hreyfðu ekki við mér.

En um það bil ári síðar, haustið 1957, fór ég í Þjóðleikhúsið og sá “Horft af brúnni” eftir Arthur Miller. Ég fór einn. Líkt og ég væri enn í sama leyndarmálinu og varð til þegar ég las leikrit Eugene O’Neill.

Sýningin gagntók mig. Í fyrsta skipti á ævinni komst ég á vald þeirrar óskilgreinanlegu mögnunar sem stundum verður til í leikhúsi og máir burt skilin milli þess sem er og þess sem ekki er, umskapar okkur um sinn í sína eigin mynd sem er einnig mynd okkar sjálfra.

Þetta var mikil og óvænt lífsreynsla. Ég var í senn heillaður og skekinn. Jafnframt skildi ég að þessir tveir ólíku höfundar, Miller og O’Neill, voru hvor með sínum hætti að sinna sama erindinu: Að kalla fram harmrænan mikilfengleika mannlegs lífs, ógnina og fegurðina sem felst í því að vera til.

Eftir sýninguna sóttu einstök atriði hennar og list leikaranna mjög á mig. Róbert Arnfinnsson lék Eddie. Þegar fram í sótti og þjáning persónunnar jókst var sem augnaráð leikarans hætti að snúa út á við, það sneri inn og myrkvaðist. Ég skildi ekki hvernig hann fór að þessu. – Helgi Skúlason lék Marco: Á hápunkti sýningarinnar streymdi slík orka frá þessum grannvaxna leikara að hann varð sem ógnvænlegt afarmenni. Ég skil ekki enn hvernig hann fór að þessu. En alltaf þegar ég hugsa um mikla leiklist vakna þessir leikarar í þessum hlutverkum upp í huga mér. Og alltaf þegar ég hugsa um djúpstæða leikstjórn kemur leikstjóri þessarar sýningar mér í hug: Lárus Pálsson. Er þá ekki sagt að þarna hafi leiklistin í Þjóðleikhúsinu risið hæst. Þessi orð fela ekki í sér slíkt mat.

Ég sá “Horft af brúnni” þrisvar. Þegar ég kom heim af þriðju sýningunni orti ég prósaljóð. Það nefndist “Útsýn” og þar er líka brú svo ekki er um að villast hvaðan efniskjarninn er kominn. Þetta prósaljóð var það fyrsta sem birtist eftir mig á prenti (í tímaritinu Dagskrá, 2. árg. 1. hefti árið 1958).

Ekki löngu síðar ákvað ég að hætta að skrifa skáldskap. En tíu árum eftir að ég sá sýninguna góðu í Þjóðleikhúsinu byrjaði ég aftur að skrifa. Þá var ekki ýkja langt í að ég sneri mér að leikritun.

Ég hef stundum verið spurður: Hvenær ákvaðstu að verða leikskáld? Hvernig verður leikskáld til? Ég hef aldrei getað svarað þessu af neinu viti. En ef ég finn einhvern tíma viðunandi svör við slíkum spurningum, þá verður þetta tvennt; gjöf kunningja míns forðum og sýning Þjóðleikhússins á “Horft af brúnni”, áreiðanlega mjög stór þáttur í þeim svörum.


Dinamit-121

Dínamít, Þjóðleikhúsið, 2005. Leikstjóri: Stefán Baldursson. Leikari: Hilmir Snær Guðnason í hlutverki Nietzsches.


 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími