03. Jan. 2024

Sjálfbærnihönnun höfð að leiðarljósi við hönnun og gerð búninga í Eddu

Þau Karen Briem búningahönnuður og Andri Unnarsson sjálfbærnihönnuður leggja markvissa áherslu á sjálfbærni við hönnun og gerð búninga í sýningu Þjóðleikhússins Eddu sem frumsýnd var á annan dag jóla á Stóra sviðinu. Þau vinna að því lágmarka kolefnisspor sýningarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem sjálfbærnihönnuður er ráðinn við uppsetningu leiksýningar á Íslandi. 

„Með þessu er verið að setja samfélagslegt fordæmi og leitast við að taka ábyrgð á því hvernig gengið er um auðlindir jarðar án þess þó að slá af listrænum kröfum“ segir Karen og Andri bætir því við að vissulega sé framleiðsla fyrir leikhús kannski ekki stærsta vandamálið þegar kemur að hlýnun jarðar, „en fyrir leikhúslistafólk er það dýrmætt að stíga með fullri meðvitund inn í sjálfbærari heim, bæði hvað varðar framleiðslu og listrænt tungumál. 

Strax í upphafi æfingaferlisins hófust þau Andri og Karen handa við rannsaka hvað væri hægt að endurnýta úr nærumhverfinu. Í samvinnu við framleiðsludeildir leikhússins leituðu þau lausna. „Við reynum að takmarka okkur eingöngu við notuð föt og búninga eða annað sem hægt er að endurnýta, enda miðar öll okkar vinna að því að halda sóun í lágmarki. Þetta stýrir vali á hráefnum og hefur áhrif á hönnunina. Stór hluti af okkar vinnuframlagi er líka að miðla þekkingu innan sviðslistastofnana á umhverfisvænum vinnubrögðum þegar kemur að hönnun búninga.“ 

Karen er uppalin í Mexíkó og á Íslandi og sækir innblástur til menningar beggja landa. Í búningahönnun sinni hefur hún lagt áherslu á markvissa endurnýtingu í æ ríkari mæli „Við erum stöðugt að leita leiða til að draga úr notkun mengandi hráefna og textíls í framleiðsluferli sviðslista.  

Auk þess að vinna með sjálfbærni að leiðarljósi, skrá þau Andri og Karen allt ferlið og munu í framhaldi frumsýningar á Eddu, miðla þeim upplýsingum til leikhússins, svo nýta megi þær við uppfærslur framvegis. „Þetta er enn sem komið er mjög tilraunakennt ferli. Það er sumt sem gengur frábærlega upp og annað sem má bæta,“ segir Karen. „Við tökum saman ýmis konar tölfræði, líkt og kolefnisfótspor þeirra hráefna sem við nýtum.“ 

Andri er búsettur í Kaupmannahöfn og Edda er fyrsta verkefni hans innan atvinnuleikhúsa á Íslandi, en hann hefur unnið víða erlendis. „Skapandi greinar á Íslandi sýna í auknum mæli ábyrgð í umhverfismálum og það er til fyrirmyndar að sjá svona stóra og rótgróna stofnun taka afstöðu og vekja þannig ennþá meiri athygli á mikilvægi sjálfbærninnar. Sérhæfð störf tengd sjálfbærni og textíl eru því miður of fá ennþá miðað við hvað textíliðnaður er mengandi.“ 

Nánar

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími