03. Okt. 2019

Samtal við leikhús í Veröld á mánudaginn

Fjallað um leiksýninguna Ör

Samtal við leikhús er málfundaröð til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur þar sem leikhúsfólk og fræðimenn koma saman og ræða uppsetningar á leikverkum sem eru í sýningu hjá leikhúsunum.

Fyrsta samtalið þetta haustið verður í Veröld – húsi Vigdísar þann 7. október kl. 17:00. Þar verður rætt um nýja sýningu Þjóðleikhússins á Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Skáldsaga Auðar Övu Ör, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018, spratt á sínum tíma af uppkasti höfundarins að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggist á sama grunni og skáldsagan. Jónas Ebeneser, fráskilinn karlmaður á miðjum aldri, fær að vita að uppkomin dóttir hans, Vatnalilja, er í raun barn annars manns. Vængbrotinn reynir Jónas að átta sig á hlutverki sínu í heiminum og skilja konur. Leikritið Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni.

Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur mun fjalla um verkið og verður svo í pallborði ásamt Ólafi Agli Egilssyni leikstjóra, höfundinum Auði Övu Ólafsdóttur og Baldri Trausta Hreinssyni leikara. Gréta Kristín Ómarsdóttir dramatúrg stýrir umræðunum.

Nánar um Samtal við leikhús hér.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími