19. Ágú. 2021

Salka Sól og Elmar í Sem á himni

Eins og komið hefur fram þá frumsýnir Þjóðleikhúsið glænýjan söngleik, Sem á himni, á næsta leikári. Söngleikurinn hefur slegið í gegn í Skandinavíu og er að hefja sigurför um heiminn. Nú er verið að ljúka mönnun leikhópsins sem leikstjórinn Unnur Ösp Stefánsdóttir mun stýra í þessari metnaðarfullu uppsetningu.  Meðal þeirra sem verða í aðalhlutverkum eru Elmar Gilbertsson og Salka Sól en aðrir leikarar eru meðal annars Valgerður Guðnadóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir en alls mun sýningin skarta 25 leikurum og söngvurum á sviði og 12 manna hljómsveit í gryfju. 

Elmar tekur nú í fyrsta sinn þátt í uppsetningu í Þjóðleikhúsinu, en hann hefur notið mikillar velgengni jafnt innan lands sem utan á liðnum árum og sungið aðalhlutverk í virtum óperuhúsum og tónleikasölum víðs vegar um Evrópu. Elmar hefur tvívegis hlotið bæði Grímuverðlaunin og Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins. 

Söngleikurinn Sem á himni er byggður á samnefndri verðlaunamynd sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna, og er sannkallaður óður til lífsins, listarinnar og ástarinnar, sem lætur engan ósnortinn. Hann er einstaklega heillandi og leikur á allan tilfinningaskalann. Ægifögur tónlist, litríkar og skemmtilegar persónur og hrífandi saga hafa nú þegar heillað fjölda áhorfenda erlendis, og nýjar uppsetningar á þessum frábæra söngleik eru væntanlegar víða.  

 

Verkið gerist í litlu samfélagi á landsbyggðinni þar sem allir þekkja alla, og hver hefur innsýn í annars gleði og sorgir. Þegar heimsfrægur hljómsveitarstjóri, á hátindi ferils síns, sest óvænt að í þorpinu til að draga sig út úr skarkala heimsins þykir ýmsum tilvalið að fá hann til að stýra kirkjukórnum. Þessi maður á sér sársaukaþrungin leyndarmál, en þegar tónlistin fer að óma af nýjum og áður óþekktum krafti í litla samfélaginu byrjar að losna um margt og lífið tekur óvænta stefnu. Hrífandi saga um hin sönnu verðmæti í lífinu, gildi vináttunnar og ástina. 

Unnur Ösp Stefánsdóttir stýrir sýningunni en hún leikstýrði m.a. Grímusýningu ársins Vertu úlfur og Mamma Mía. Unnur er meðal listamanna sem nýlega hafa gengið til liðs við Þjóðleikhúsið á fastan samning. Sömu sögu er að segja af Ilmi Stefánsdóttur sem hannar leikmynd og Birni Bergsteini Guðmundssyni ljósahönnuði. Filippía I. Elísdóttir hannar búninga, Jón Ólafsson stýrir tónlist og Lee Proud er danshöfundur.  

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími