17. Ágú. 2021

Þorleifur leitar að tilganginum

Þorleifur Örn Arnarsson leitar að tilganginum í nýju verki 

Þorleifur Örn Arnarsson, sem verið hefur önnum kafinn við að sviðsetja Rómeó og Júlíu Shakespeares á Stóra sviði Þjóðleikhússins, er með mörg járn í eldinum. Hann vinnur nú einnig að uppsetningu á glænýju verki sem hann mun þróa með leikhópnum og sett verður á svið í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Segja má að Þorleifur hafi verið maður stóru sviðanna bæði hérlendis í Þýskalandi og víðar, en þetta mun vera í fyrsta sinn frá því að hann sýndi Phycosis 4.48 eftir Söru Kane, í Karlsruhe í Þýskalandi árið 2009,sem hann setur upp leikverk á litlu sviði. 
 

Persónulegar sögur þátttakenda eru lagðar til grundvallar í þessu nýja verki, en þeir koma úr ólíkum áttum og hafa fjölbreyttan bakgrunn. Við heyrum sögur úr fortíð og nútíð sem hafa sett mark sitt á samtímann. Sögur um fólk á flótta, ofsóknir og áföll, átök menningarheima, kynþáttahyggju, útskúfun og aðferðir til að lifa af – en líka um fótboltamót á KR-vellinum og grillkvöld í Hafnarfirðinum. 

 Á meðal leikara í verkinu er hin þýska Jördís Richter sem hefur búið um árabil á Íslandi en hún hefur verið sannkölluð stórstjarna í þýsku leikhusi um árabil. Það verður sannkallaður hvalreki fyrir íslenska leikhúsgesti að fá að njóta krafta Jördísar. Aðrir þátttakendur eru Ebba Katrín Finnsdóttir, Jónmundur Grétarsson og fleiri. Þorleifur Örn er þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í leikhúsinu, og von er á skemmtilegri, kraftmikilli og litríkri sýningu sem sýnir lífið og leikhúsið í nýju ljósi. 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími