28. Apr. 2020

Orðsending í tilefni alþjóðlega dansdagsins

Alþjóðlegi dansdagurinn er 29. apríl. Saga danslistar á Íslandi er samofin sögu Þjóðleikhússins. Fyrsti íslenski ballettinn var sýndur á Listamannaþingi í Þjóðleikhúsinu árið 1950, Eldurinn eftir Sigríði Ármann, byggður á samnefndu kvæði Einars Benediktssonar, með tónlist eftir Jórunni Viðar. Árlega sendir dansnefnd ITI/UNESCO út orðsendingu í tilefni dagsins. Hér má lesa “Orðsendingu í tilefni alþjóðlega dansdagsins 29. apríl 2020” eftir Gregory Vuyani MAQOMA, frá Suður-Afríku, en hann er dansari, leikari, danshöfundur og danskennari. Steinunn Þorvaldsdóttir þýddi orðsendinguna yfir á íslensku.

Orðsending í tilefni alþjóðlega dansdagsins

Í viðtali, sem tekið var við mig nýlega, þurfti ég að kafa ofan í hugtakið dans og hvers virði hann væri mér. Í svari mínu varð ég að líta um öxl og skoða feril minn og við það gerði ég mér grein fyrir að allt snerist þetta um tilgang. Sérhver dagur felur í sér nýja áskorun sem þarf að takast á við og það er í gegnum dansinn sem ég reyni að öðlast skilning á heiminum.

Við erum að ganga í gegnum ótrúlegar hörmungar á tímum sem mér finnst best að kalla eftirmannlega tímabilið. Núna er meiri þörf á að dansa með tilgangi en nokkru sinni fyrr og að minna heiminn á að mennskan sé ennþá til. Tilgangur og samhyggð verða að bera sigurorð af tvímælalausu og áralöngu sýndarlandslagi sundrungar sem hefur kallað fram tilfinningaútrás fyrir allsherjar sorg. Sú útrás mun sigra dapurleikann og harðan veruleikann sem heldur áfram að gegnsýra þá lifendur sem horfast í augu við dauða, höfnun og fátækt. Nú, frekar en nokkru sinni fyrr, verður dansinn okkar að gera ráðamönnum heimsins og þeim sem hefur verið falið að gæta og bæta aðbúnað manna, skýra grein fyrir að við skipum her hamslausra hugsuða og að tilgangur okkar sé sá að reyna að breyta heiminum skref fyrir skref. Dans er frelsi og með fundnu frelsi okkar verðum við að losa aðra úr þeirri sjálfheldu sem þeir eru komnir í víðsvegar um heim. Dansinn er ekki pólitískur en hann verður pólitískur af því að hann tvinnast mannlegu samhengi og þess vegna veitir hann aðstæðum svörun í tilraun sinni til að endurskapa mannlega reisn.

Þegar við dönsum með líkömum okkar, veltumst um í rými og flækjumst hvert um annað, verðum við hreyfiafl sem hjúpar hjörtu, snertir sálir og veitir líkn sem svo sár þörf er fyrir. Tilgangurinn verður því að einum fjölgreinóttum, ósigrandi og ódeilanlegum dansi. Það eina sem við þurfum núna er að dansa aðeins meira!

Gregory Vuyani MAQOMA, frá Suður-Afríku
Dansari, leikari, danshöfundur og danskennari

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími