23. Apr. 2020

Leikhús þjóðarinnar í 70 ár

Þjóðleikhúsið fagnaði 70 ára afmæli á sumardaginn fyrsta árið 2020. Þrátt fyrir að hátíðarhöldum hafi verið slegið á frest fram á haustið vegna samkomubannsins minntumst við þessara tímamóta með margvíslegum hætti. Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri flutti ávarp, Tinna Gunnlaugsdóttir og Stefán Baldusson fyrrum þjóðleikhússtjórar ræddu við Melkorku Teklu Ólafsdfóttur um margþætta upplifun sína af leikhúsinu.

Ávarp Þjóðleikhússtjóra

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhústjóri, ávarp

Það var vel við hæfi að langþráður draumur Íslendinga um að eignast sitt eigið Þjóðleikhús skyldi rætast á sumardaginn fyrsta árið 1950. Vor var gengið í garð í íslensku menningarlífi og þessi dagur markaði tímamót í sögu þjóðar. Álfahöllin, eins og leikhúsið hefur gjarnan verið nefnt, bauð upp á ólýsanlega leikhústöfra sem voru ólíkir flestu því sem hin fátæka þjóð fyrirstríðsáranna hafði þekkt. Á opnunardaginn var leikhúsinu ekki bara lýst sem „musteri íslenskrar tungu“, heldur líka sem „vígvelli hugmynda“. Sú lýsing á vel við enda er leikhúsið einstakur vettvangur fyrir samfélag til að takast á um áleitnar spurningar.

Á þeim sjötíu árum sem liðin eru hefur starfsemi Þjóðleikhússins verið einkar blómleg. Hér höfum við komið saman, hlegið, grátið og látið hreyfa við okkur. Þegar vel hefur tekist til höfum við náð að spegla okkur sjálf og það samfélag sem við byggjum. Og jafnvel að gera okkur að betri manneskjum.

Minningar landsmanna um ógleymanlega leikhústöfra frá sjötíu árum eru óteljandi. Margir eiga sínar fyrstu leikhúsminningar úr Þjóðleikhúsinu og flestir hafa upplifað það að standa á öndinni yfir örlögum persóna á sviðinu. Við höfum hrifist með hundruðum annarra leikhúsgesta sem í salnum sitja. Enda er leikhúsið staður sem byggir á samveru og samkennd. Við sköpum saman augnablik sem aldrei verða endurtekin.

Á þessum tímamótum er við hæfi að þakka frumkvöðlunum sem stóðu að byggingu Þjóðleikhússins og þeim sem hafa haldið merkinu á lofti, listamönnum og öðru starfsfólki sem hefur skapað allar hinar ómetanlegu minningar sem greyptar eru í minni okkar.

Við sem störfum í Þjóðleikhúsinu í dag erum stolt af því að vera hluti af þessari merku sögu. Á þeim grunni byggjum við. Okkar kappsmál er að opna leikhúsið enn frekar og tryggja að það haldi áfram að hreyfa við leikhúsgestum um ókomna tíð. Við ætlum að segja sögur sem eiga erindi og skipta máli, þróa listgreinina og halda áfram að gleðja og skemmta. Við hlökkum óskaplega til að taka aftur á móti gestum í Álfahöllinni fögru þegar nýtt leikár gengur í garð í haust. Þá ætlum við að skapa nýjar og magnaðar minningar með ykkur, kæru leikhúsunnendur. Því Þjóðleikhúsið eigum við öll saman.

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.

Þjóðleikhúsið í 70 ár

Afmælismyndband

Viðtal við Stefán Baldursson, leikstjóra og fyrrum þjóðleikhússtjóra

Stefán Baldursson, fyrrum þjóðleikhússtjóri

Viðtal við Tinnu Gunnlaugsdóttur, leikara og fyrrum þjóðleikhússtjóra

Tinna Gunnlaugsdóttir, fyrrum þjóðleikhússtjóri

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími