31. Ágú. 2021

Nýtt leikár Þjóðleikhússins afhjúpað

Þjóðleikhúsið hefur nú sitt 73. leikár af krafti og jafnvel meiri óþreyju en nokkru sinni fyrr. Starfsfólk Þjóðleikhússins hefur nýtt tímann undanfarið vel til undirbúnings nýrra sýninga og endurnýjunar á aðstöðu. En nú horfum við bjartsýn fram á veginn og getum ekki beðið eftir því að mæta áhorfendum í enn glæsilegra Þjóðleikhúsi. 

LESA ÞJÓÐLEIKHÚSBLAÐIÐ

Fjórar ólíkar en ákaflega spennandi sýningar bíða þess að verða frumsýndar á Stóra sviðinu.  Rómeó og Júlía í nýrri útgáfu undir stjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar verður frumsýnd nú á laugardag, 4. september. Þessi mikla örlagasaga birtist hér með glænýrri tónlist og nýrri nálgun sem líkleg er til að höfða ekki síst til ungs fólks. Þjóðleikhúsið efnir til hátíðar fyrstu sýningarvikuna þar sem 16-20 ára gestum er boðið á sýninguna.

Framúrskarandi vinkona verður jólasýning Þjóðleikhússins í ár og mega áhorfendur vænta sannkallaðrar stórveislu bæði á sviði og í framhúsi, því gestir munu geta pantað ítalskar veitingar í anda sýningarinnar. Napólísögur Ferrante hafa vakið aðdáun um allan heim og í þessari spennandi uppfærslu leiðir hinn heimsþekkti leikstjóri Yael Farber glæsilegan hóp listamanna.

Eftir áramót verður glænýr söngleikur Sem á himni frumsýndur en hann hefur hafið sigurför um heiminn.  Unnur Ösp Stefánsdóttir leiðir þessa gleðisprengju en á sviðinu birtist stór leikhópur og fjórtán manna hljómsveit í gryfju flytur undurfagra tónlist.

Tyrfingur Tyrfingsson er óþekktaranginn í íslenskri leikritun og nú í fyrsta sinn fær verk eftir hann rými á Stóra sviðinu. Úrvalslið leikara mun segja okkur ósvífnar sögur í verkinu Sjö ævintýri um skömm í leikstjórn Stefáns Jónssonar.

Sviðslistamanneskjan Taylor Mac er svo rúsínan í pylsuendanum á frumsýningum á Stóra sviðinu. Listahátíð í Reykjavík og Þjóðleikhúsið sameinast um að fá þessa eftirtektarverðustu og skrautlegustu sviðslistamanneskju samtímans í júní næstkomandi. 

Sýningar sem gerðu það gott á síðasta leikári munu að sjálfsögðu fylgja okkur áfram inn í þennan leikhúsvetur. Vertu úlfur í leikstjórn Unnar Aspar sópaði til sín Grímuverðlaunum og var meðal annars valin sýning ársins 2021. Nashyrningarnir  í leikstjórn Benedikts Erlingssonar vöktu verðskuldaða athygli á síðasta leikári og boðið verður upp á nokkrar sýningar á þessu magnaða verki Ionescos. Ekki má gleyma Kardemommubænum einstaka í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, sem verður að sjálfsögðu áfram í boði. 

 

Kassinn er krassandi áfangastaður þess sem elskar leikhúsið 

Í Kassanum verður einstakri sögu Ástu Sigurðardóttur gerð skil í nýju verki sem Ólafur Egill skrifar og leikstýrir. Ásta er verk um konu sem var lifandi goðsögn í bæjarlífi Reykjavíkur um miðbik síðustu aldar. Myndlist hennar og ritverk vöktu aðdáun en líka hneykslun, og oft urðu skilin á milli lífs þessarar hæfileikaríku en breysku konu og höfundarverks hennar óljós. Án titils er verk sem Þorleifur Örn Arnarsson og Jón Atli Jónasson skapa í samvinnu við leikhópinn þar sem efnið er sótt í álitamál og spurningar úr samtíma okkar.  

Þjóðleikhúsið sviðsetur í fyrsta sinn, eftir áramót, verk eftir Caryl Churchill, eitt virtasta leikskáld Bretlands, og munu margir fagna því. Churchill (f. 1938) er í hópi framsæknustu leikskálda samtímans, og er hún ekki síst þekkt fyrir afar áhugaverðar tilraunir með form og innihald. Ást og upplýsingar verður á sviði Kassans í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. 

Gísli Örn Garðarsson býður svo til jólaveislu í nóvember og desember. Í Jólaboðinu  gægjumst við inn í stofu á íslensku heimili á aðfangadagskvöld, reglulega, á einnar aldar tímabili! Upphaf vakti verðskuldaða athygli þegar það var frumsýnt á síðasta leikári, en því miður þurfti að gera hlé á þessari áhrifaríku sýningu vegna Covid en nú verður hægt að bjóða upp á hana á nýjan leik. 

Litla sviðið verður fullt af lífi á leikárinu. Barnasýning ársins, Kafbátur í leikstjórn Hörpu Arnardóttur, mun sigla þar áfram. Verkið er eitt þeirra 150 barnaleikrita sem bárust í handritasamkeppni Þjóðleikhússins og auk þess að vera einstaklega fallegt og skemmtilegt á það brýnt erindi.  
Bækur Birgittu Haukdal um Láru og Ljónsa njóta ómældra vinsælda hjá íslenskum börnum, og nú birtast þessar ástsælu persónur í fyrsta sinn á leiksviði í leikstjórn Góa. Leikverkið hentar vel yngstu áhorfendunum og er tilvalin skemmtun í aðdraganda jólanna. Birgitta Haukdal hefur samið ný lög fyrir leiksýninguna.  Enn eitt nýja íslenska barnaleikritið verður svo frumsýnt í febrúar þegar Umskiptingur eftir Sigrúnu Eldjárn með nýrri tónlist Ragnhildar Gísladóttur og í leikstjórn Söru Martí Guðmundsdóttur verður frumsýnt. Þar er á ferð ærslaleg saga sem gerist í mannheimum og tröllaheimum.  

 
Nýr og endurbættur Þjóðleikhúskjallari – sannkölluð klassabúlla 


Leikhúskjallarinn hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er orðinn sannkölluð klassabúlla. Þar mun hver sýningin og dagskráin taka við af annarri í allan vetur. Þar er boðið upp á uppstand, kabaretta, dragsýningar, tónleika, skemmtisýningar og leiksýningar. Fyrir skemmstu var magnaður einleikur Bjarna Snæbjörnssonar, Góðan daginn, faggi, frumsýndur og hefur fengið frábærar viðtökur.  En meðal annarra sýninga í Kjallaranum er bráðfyndin sketsasýning frá Kanaríhópnum, gamanóperan Ástardrykkurinn, Sjitt ég er sextugur og Bara góðar. 

Nýr og spennandi kostur fyrir leikhúsgesti er Hádegisleikhús Þjóðleikhússins sem tekur nú til starfa. Í Hádegisleikhúsinu verða frumsýnd fjögur ný íslensk verk sem valin voru úr innsendu efni í handritasamkeppni sem Þjóðleikhúsið hélt í samstarfi við RÚV. 247 leikrit eftir fjölda framúrskarandi höfunda bárust í samkeppnina og voru fjögur þeirra valin til sýninga á þessu leikári. Gestir geta notið ljúffengrar súpu og horft á stutta leiksýningu. Þess má geta að fyrstu 500 leikhúskortum Þjóðleikhússins á þessu leikári fylgir ein sýning í Hádegisleikhúsinu.  

 Eins og vaninn er býður leikhúsið ungu fólki í leikhús. Sýningin Vloggið, eftir Matthías Tryggva Haraldsson verður sýnd víða um land fyrir 10. bekkinga. Einnig verður elstu deildum leikskóla boðið að sjá verkið fallega Ég get. 

 Loftið er nýr vettvangur fyrir formtilraunir, rannsóknir og nýsköpun í leikhúsinu. Það er staður til að hlusta á óheyrðar raddir, segja ósagðar sögur og deila leyndri þekkingu. Við höldum áfram með þróun verka og munum sýna nokkur þeirra sem verk í vinnslu auk þess sem við hefjum forvinnu og þróun nýrra verka. Meðal verka sem áhorfendur geta fylgst með þróun á í vetur eru Trúnó, Íslandsklukkan og Eyja. Þá verður einnig boðið upp á sýningar á Hliðstæðu fólki og Sýningunni okkar en báðar eru óvenjulegar að formi og innihaldi og henta ekki síst ungu fólki. Þá verður efnt til þjóðfundar með ungu fólki á Stóra sviðinu þar sem kallað verður eftir þeirra innleggi og sögum og rætt um leikhús framtíðarinnar.  

Nýtt leikár hefst við óvenjulegar aðstæður þegar við erum enn að skipuleggja sýningarhald eftir aðstæðum hverju sinni og veiran litar enn líf okkar nokkuð.  Til að mæta þeim aðstæðum hefur Þjóðleikhúsið stóraukið allan sveigjanleika og svigrúm leikhúsgesta sem geta tryggt sér áskriftarkort með jafn mörgum sýningum og hver kýs auk þess sem okkar gestir geta breytt miðum hvenær sem hentar.  Sýningarhald er með litlum takmörkunum í dag og veitingasala er opin. Enn er þó grímuskylda í leikhúsinu en útlit er fyrir að það breytist innan fárra vikna.  

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími