Matthías Tryggvi Haraldsson ráðinn listrænn ráðunautur í Þjóðleikhúsinu
Matthías Tryggvi Haraldsson, leikskáld og sviðshöfundur, hefur verið ráðinn í starf listræns ráðunautar Þjóðleikhússins. Matthías hefur víðtæka reynslu úr íslensku leikhús- og menningarlífi en er þekktastur fyrir leikverk sín og þátttöku í hljómsveitinni Hatara. Matthías Tryggvi gengur þar með til liðs við teymi listrænna stjórnenda Þjóðleikhússins. Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir, sem gegnt hefur starfinu um tæpra fjögurra ára skeið, mun snúa sér að ritstörfum og skrifa nýtt leikrit fyrir leikhúsið eftir að hún lætur af störfum 1. nóvember, þegar Matthías Tryggvi tekur við keflinu.
Matthías Tryggvi er reynslumikið leikskáld og höfundur en hefur einnig reynslu sem leikstjóri og dramatúrg. Verk hans hafa verið flutt í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, hjá sjálfstæðum leikhúsum og erlendis. Hann var samningsbundið leikskáld Leikfélags Reykjavíkur. Matthías Tryggvi hefur einnig mikla reynslu á öðrum sviðum menningar og samfélagsmála og var m.a. um árabil í hljómsveitinni Hatara sem vakti athygli víða um heim fyrir tónlist sína, gjörninga og beitta ádeilu. Hann hefur reynslu af dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp auk mikillar reynslu af texta- og hugmyndasmíði, m.a. hjá auglýsingastofunni Brandenburg. Matthías Tryggvi hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, m.a. Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin fyrir leikrit sitt Síðustu dagar Sæunnar, auk annarra tilnefninga. Hann fékk einnig íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins með hljómsveit sinni Hatara. Matthías Tryggvi er útskrifaður sviðshöfundur frá LHÍ.
Listrænn ráðunautur Þjóðleikhússins vinnur með Magnúsi Geir Þórðarsyni þjóðleikhússtjóra, Melkorku Teklu Ólafsdóttur leiklistarráðunauti og öðrum listrænum stjórnendum leikhússins að listrænni stefnu, verkefnavali og stuðningi við uppsetningar leikhússins. Hann sinnir höfundastarfi, þróun leikverka með höfundum og ýmiskonar verkefnastjórn.
„Það er mikill fengur í því að fá Matthías Tryggva til liðs við öflugt teymi listrænna stjórnenda Þjóðleikhússins. Hann er hrikalega skemmtilegur listamaður, hefur mikla reynslu, frábæra þekkingu, innsæi og ástríðu sem ég veit að verður dýrmæt viðbót við teymið sem fyrir er í húsinu. Hann kemur úr frjórri grasrót nýrrar kynslóðar íslensks leikhúslistafólks. Við hlökkum mikið til samstarfsins og bjóðum hann velkominn í hópinn,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
„Fiðrildin í maganum eru strax farin að flögra. Það er með kærleik í hjarta sem ég stíg í þetta hlutverk og get varla ímyndað mér betri vettvang til að nýta krafta mína. Listin er einstakt starfssvið að því leyti að við þurfum í senn fagmennsku og skýra ramma en ekkert síður óendanlegt pláss til að vera púkar. Með hvort tveggja í huga er ég til þjónustu reiðubúinn!“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson.