Leikhúsveisla í stofunni
Þjóðleikhúsið og RÚV bjóða landsmönnum til leikhúsveislu með því að sýna í sjónvarpi vinsælar leiksýningar.
Boðið er til leikhúsveislu heima í stofu þar sem Þjóðleikhúsið þarf að fella niður sýningar vegna samkomubanns, en um leið er 70 ára stórafmæli leikhússins fagnað með endursýningum á mikilvægum sýningum úr sögu leikhússins.
Á laugardags- og sunnudagskvöldum næstu vikurnar kl. 19:30 verða leiksýningar sýndar á RÚV2. Sýningarnar verða svo endursýndar á aðalrás RÚV og aðgengilegar áfram á vefnum í spilara RÚV.is.
Leikhúsunnendum gefst hér tækifæri til að rifja upp kynnin við eða sjá í fyrsta sinn leikverk eins og Í hjarta Hróa hattar, Græna landið, Með fulla vasa af grjóti, Hart í bak, Grandaveg 7, Þrek og tár, Íslandsklukkuna og Engla alheimsins. Einnig verða tvær barnasýningar sýndar að degi til, Kuggur og leikhúsvélin og Litla skrímslið og stóra skrímslið.
Leiksýningin Með fulla vasa af grjóti er á dagskrá Leikhússveislunnar.
Hápunkturinn verður á sumardaginn fyrsta, daginn sem Þjóðleikhúsið fagnar 70 ára afmæli. Þá verður boðið upp á sýningu á Sjálfstæðu fólki frá árinu 1999 sem sýnd er í tveimur hlutum – en þess má geta að þetta er einnig afmælisdagur Halldórs Kiljans Laxness, nóbelsskáldsins og höfundar bókarinnar.
Ýmsir rétthafar sem eiga rétt vegna endurflutnings verkanna ásamt RÚV og Þjóðleikhúsinu hafa gefið góðfúslegt leyfi sitt fyrir flutningi nú í samkomubanni.
Dagskrá leikhússveislunnar:
Lau. 4. apríl kl. 19:30: Í hjarta Hróa hattar
Sun. 5. apríl kl. 19:30: Hart í bak
Fös. 10. apríl kl. 14:00: Kuggur og leikhúsvélin
Lau. 11. apríl kl. 19:00: Englar Alheimsins
Sun. 12. apríl, páskadagur, kl. 19:30: Íslandsklukkan
Lau. 18. apríl kl. 19:30: Með fulla vasa af grjóti
Sun. 19. apríl, kl. 19:30: Græna landið