10. Jan. 2022

Leikarar úr Þjóðleikhúsinu létta börnum lund við bólusetningu

Kasper, Jesper og Jónatan verða á ferðinni í Laugardalshöll alla vikuna og ætla að syngja, sprella og skemmta. Þeir hafa gefið drengskaparloforð um að stela ekki neinu á meðan dvöl þeirra stendur.

Ræningjarnir þrír úr Kardemommubæ, þeir Kasper, Jesper og Jónatan, fréttu af því að stórir hópar barna myndu verða bólusettir gegn Covid 19 í Laugardalshöll nú í vikunni, og ákváðu að líta þar við alla daga vikunnar til að létta lund barnanna. Heilsugæslan tók boði Þjóðleikhússins um að skemmta börnunum fegins hendi, enda viðbúið að það verði kærkomið fyrir marga unga gesti í Laugardalshöllinni að hitta ræningjana. Ræningjarnir munu, ásamt tónlistarmanninum Karli Olgeirssyni, syngja, sprella og spjalla við krakkana til þess að lífga upp á andrúmsloftið. Ræningjarnir hafa gefið drengskaparloforð um að þeir muni ekki stela nokkrum einasta hlut á meðan heimsókn þeirra stendur.

Aðspurðir segjast ræningjarnir ekki hræddir við sprautur. „Við höfum líklega orðið svona hugrakkir af því að búa með ljóni“, segir Jesper. „Við erum ekki hræddir við neitt“, segir Kasper, en Jónatan bætir við: „Nema kannski Soffíu frænku…“
Sett hefur verið upp svið í Laugardalshöll og munu skemmtiatriðin fara fram hluta úr degi, alla þessa viku.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími