Glæsilegt nýtt leikár er hafið!
Nýtt leikár Þjóðleikhússins er nú hafið, fjölbreytni í verkefnavali er gríðarlega mikil og leikhúsgestir eiga sannarlega mikla leikhúsveislu í vændum. Leikárið einkennist ekki síst af fjölda nýrra íslenskra verka auk þess sem óvenju margar sýningar frá síðasta leikári eru enn á fleygiferð.
Panta blaðið Lesa blaðiðStormur er glænýr söngleikur eftir Unni Ösp og Unu Torfa, sýning sem lætur hjartað ólmast með magnaðri tónlist og undurfögrum augnablikum. Leikstjóri er Unnur Ösp Stefánsdóttir. Eltum veðrið er gleðileikur með söngvum úr smiðju listafólks Þjóðleikhússins sem mun sannarlega kitla hláturtaugarnar. Jólasýning Þjóðleikhússins er Yerma í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Verkið er byggt á samnefndu meistaraverki Lorca en atburðarásin er flutt til nútímans á meistaralegan hátt.
Heim er nýtt leikrit eftir Hrafnhildi Hagalín, eitt okkar virtasta leikskáld, í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Taktu flugið, beibí! er eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur og fjallar um baráttu hennar fyrir framtíð, sjálfstæði og réttindum sem manneskja með líkamlega skerðingu. Ilmur Stefánsdóttir leikstýrir. Blómin á þakinu er nýtt íslenskt barnaleikrit byggt á dásamlegri bók Ingibjargar Sigurðardóttur og Brians Pilkington í leikstjórn Agnesar Wild.
Sýningarnar sem slógu í gegn á síðasta ári, Frost, Orð gegn orði og Grímusýning ársins, Saknaðarilmur, verða áfram á fjölunum. Aðventusýningin vinsæla Jólaboðið birtist nú á Stóra sviðinu og sprúðlandi leikhópur leikhússins tekur að sér ný hlutverk í sýningunni. Eftirlætis aðventusýning barnanna, Lára og Ljónsi, verður á Litla sviðinu. Pólsk gestasýning, Sjóndeildarhringurinn/Widnokrąg verður sýnd í september, með íslenskum og enskum texta og stórskemmtilega samstarfssýningin Sund í leikstjórn Birnis Jóns Sigurðssonar kemur á svið með vorbirtunni. Í Hádegisleikhúsinu verður nú boðið upp á Heimsókn eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur.
Leikhúskjallarinn iðar af lífi
Í Kjallaranum kraumar í suðupottinum og þegar lokið er tekið af spretta fram nautnaseggir, grínistar, stórsöngvarar, spunameistarar, dragdrottningar og öll þau sem vilja hlæja hátt. Á rauðu ljósi, einleikur Kristínar Þóru, heldur áfram að stressa áhorfendur en fyrst og fremst gleðja, en uppselt var á yfir 50 sýningar á síðasta leikári. Improv Ísland stendur vaktina á miðvikudögum með óborganlegum spunasýningum sínum. Grínkjallarinn er spennandi nýjung þar sem úrvalslið íslenskra uppistandara mun brillera á fimmtudagskvöldum. Kjallarakabarettinn lýsir upp svartasta skammdegið á föstudögum. Sviðslistahópurinn Óður býður upp á bráðfjörugar gamanóperur í návígi. Skíthrædd er tragíkómískur söngleikur eftir Unni Elísabetu Gunnarsdóttur sem deilir hér persónulegum sögum úr lífi sínu. REC Arts mun bjóða upp á vinnusmiðjur og standa fyrir House of Revolution fjölmenningarkvöldum fjórum sinnum í vetur.
Sjá sýningar