Gísli J. Alfreðsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri látinn
Gísli J. Alfreðsson, sem gegndi starfi þjóðleikhússtjóra á árunum 1983-1991, lést 28. júlí sl., 88 ára að aldri. Þjóðleikhúsið sendir fjölskyldu Gísla hugheilar samúðarkveðjur og þakkar framlag hans til íslenskrar leiklistar.
Gísli í hlutverki sínu í Grasmaðki
Gísli fæddist árið 1933 og ólst upp í Keflavík. Hann stundaði nám í Leiklistarskóla Ævars Kvaran samhliða menntaskólanámi, lauk stúdentsprófi frá MR og stundaði nám í rafmagnsverkfræði í tvö ár við Technische Hochschule í München. Hann sneri sér þó fljótlega að leiklistinni og hóf nám við Otto Falckenberg Schule við Kammerspiele leikhúsið í München. Að námi loknu starfaði Gísli við Residenz leikhúsið í München í eitt ár. Hann leikstýrði nokkrum verkum hjá Grímu eftir heimkomuna og var leikari við Þjóðleikhúsið á árunum 1962-1983. Hann var þjóðleikhússtjóri árin 1983-1991 og skólastjóri Leiklistarskóla Íslands á árunum 1992-2000. Þá leikstýrði hann fjölda leikrita í útvarpi og sjónvarpi. Eftir starfslok hjá Þjóðleikhúsinu lék Gísli í nokkrum kvikmyndum, m.a. þýskum myndum. Þá þýddi Gísli á annan tug leikrita fyrir leiksvið og útvarp, og var formaður Félags íslenskra leikara árin 1975-1983.
Herbergi 213, Gísli ásamt Brynju Benediktsdóttur.
Fyrsta hlutverk Gísla við Þjóðleikhúsið var Jóhann í Gestagangi eftir Sigurð A. Magnússon árið 1962. Hann lék ýmis hlutverk á næstu árum og var fastráðinn leikari við húsið haustið 1965. Hann lék um 90 hlutverk í Þjóðleikhúsinu, meðal annars í Íslandsklukkunni, Herbergi 213, Náttbólinu, Jóni Arasyni, Lé konungi, Týndu teskeiðinni, Meistaranum, Líkaminn – annað ekki, Grasmaðki, Skugga-Sveini, Íslandsklukkunni, Uppreisn á Ísafirði og Aurasálinni. Meðal leikstjórnarverkefna Gísla í Þjóðleikhúsinu eru einþáttungarnir Sandur og Kona, Höfuðsmaðurinn frá Köpernick, Túskildingsóperan, Sporvagninn Girnd, Á sama tíma að ári, Í deiglunni, Indíánar, Sannleikur í gifsi og Loftsteinninn.
Hver er hræddur við Virginíu Woolf (Róbert Arnfinnsson, Anna Herskind, Helga Valtýsdóttir, Gísli Alfreðsson)
Í viðtali í DV í janúar árið 1983, sem tekið var í tilefni þess að Gísli var nýráðinn þjóðleikhússtjóri var hann spurður: „En ef þú horfir um öxl. Hvar finnast þér þínir leikhæfileikar hafa notið sín best, í hverskonar hlutverkum eða senum?“ Svar Gísla var: „Ég veit það satt að segja ekki. Það er um svo mörg hlutverk að velja frá rúmlega tuttugu ára leikferli mínum. Og þó… Ég lék í fyrra í leikriti sem heitir „Líkami og annað ekki“ og mér þótt mjög gaman að fást við þá persónu sem mér var ætlað að miðla þar. Ég veit ekki í hvaða katigóríu ég á að setja það hlutverk. Ætli megi ekki segja það vera mikið tilfinninga- og átakahlutverk.“
Gísli og Sigmundur Örn Arngrímsson í sýningunni Líkaminn – annað ekki.
Grasmaðkur.