16. Sep. 2020

Fyrsta frumsýning Þjóðleikhússins á nýju leikári

Upphaf er fyrsta frumsýning Þjóðleikhússins á nýju leikári, undir nýrri listrænni stjórn, og fyrsta sýningin frá því samkomubann var sett á í mars.

María Reyndal leikstýrir Upphafi, einstaklega vel skrifuðu nýju verki sem sló í gegn í London. Frumsýning verður í Kassanum lau. 19. september.

Hálfu ári eftir að samkomubann var sett á hefst nýtt leikár Þjóðleikhússins með langþráðri frumsýningu á verkinu Upphaf. Verkið sló í gegn í London þegar það var frumflutt árið 2017. Upphaf er einstaklega vel skrifað nýtt leikrit, fyndið og ljúfsárt, um þrána eftir nánd og löngun til að eignast fjölskyldu. Verkið fjallar jafnframt um óttann við skuldbindingar og það að tengjast öðrum of sterkum böndum. María Reyndal leikstýrir en leikarar eru Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson. Valdimar Guðmundsson og Úlfur Eldjárn semja titillag sýningarinnar.

Það er ekki ósennilegt að þjóðin sé orðin leikhúsþyrst. Hálfu ári eftir að leikhúsin þurftu að loka vegna samkomubanns er sú langþráða stund loksins runnin upp að hægt er að upplifa leiksýningar að nýju. Nándartakmarkanir eru þó enn í gildi og aðeins verða seldir 70 miðar á hverja sýningu í Kassanum þótt salurinn rúmi 130 gesti.

Verkið er einnig fyrsta frumsýning fyrsta leikárs sem Magnús Geir Þórðarson stýrir sem þjóðleikhússtjóri. Unnið hefur verið að umtalsverðum breytingum á starfsemi, mönnun og aðstöðu Þjóðleikhússins sem mun birtast gestum nú og á næstu vikum. Leikararnir tveir eru meðal listamanna sem hafa nýverið gengið til liðs við Þjóðleikhúsið á fastan samning.

Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson hafa rækilega tryggt sig í sessi sem framúrskarandi leikarar með frammistöðu sinni í leikhúsi og kvikmyndum á síðustu árum. Þau voru bæði fastráðin við Þjóðleikhúsið í sumar og Upphaf er þeirra fyrsta verk saman sem leikarar Þjóðleikhússins.

Nánari upplýsingar um verið er að finna hér.

Hér má hlýða á lag Valdimars og Úlfs, Upphaf, sem er titillag sýningarinnar.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími