Fullveldiskaffi með eldra starfsfólki haldið í Þjóðleikhúsinu
Svokallað Fullveldiskaffi var haldið í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn í dag en þá var eldri starfsmönnum Þjóðleikhússins boðið í heimsókn. Það urðu miklir fagnaðarfundir hjá núverandi starfsmönnum og gömlum vinnufélögum sem mörg hver hafa ekki sést um árabil.
Farið var yfir gamlar sögur úr leikhúsinu og nokkrir eldri starfsmenn heiðraðir sérstaklega og þeim þakkað fyrir störf sín í þágu leikhússins og listarinnar. Þórhallur Sigurðsson flutti minningabrot fyrri tíma, og Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtóri fluttu stutt ávarp.
Ragnheiður Steindórsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Eggert Þorleifsson, Edda Björgvinsdóttir og Kristín Hauksdóttir sýningarstjóri, fögnuðu öll sjötugsafmæli á árinu. Einnig var þeim Trygve Jonas Eliassen, fyrrum propsara og Ingveldi Breiðfjörð, sem starfaði um árabil á saumastofu, þökkuð góð störf. Þau fengu meðal annars sérstaka Þjóðleikhúspúða að gjöf en efnið er það sama og prýðir forsal og sal Þjóðleikhússins og því getur þetta sómafólk haft lítinn hluta af anda Þjóðleikhússins með sér heima.
Þau Sigríður Eyrún Friðriksdóttir og Karl Olgeirsson fluttu ljúfa jólatóna fyrir gestina sem skemmtu sér hið besta. Við þökkum öllum þeim sem lögðu leið sína í fullveldiskaffið hjartanlega fyrir komuna og hlökkum til að sjá ykkur að ári, að minnsta kosti.