19. Des. 2022

Viðtal við Benedict Andrews og Marius von Mayenburg

Þjóðleikhúsið stendur fyrir stórviðburði í íslensku leikhúslífi á Stóra sviðinu – heimsfrumsýningu á glænýjum þríleik eftir Marius von Mayenburg, sem talinn er eitt merkasta núlifandi leikskáld Evrópu. Hinn heimsþekkti leikstjóri Benedict Andrews leikstýrir tveimur verkanna, Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Alveg sama, haustið 2023. Það er mikill fengur fyrir íslenska leikhúsgesti og listafólk að fá þessa virtu leikhúsmenn til samstarfs. Leikritin eru framúrskarandi vel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Bitastæð hlutverkin eru öll í höndum stórleikara.

Benedict, leiðir ykkar Mariusar hafa legið saman í leikhúsinu í tvo áratugi, og þú hefur áður leikstýrt fimm verkum eftir hann í leikhúsum í Ástralíu og í Schaubühne-leikhúsinu í Berlín. Hvað er að þínu mati áhugaverðast við leikritin hans?

Ég hitti Marius fyrst þegar ég setti upp leikrit hans Eldfés (Feuergesicht) hjá Sydney Theatre Company árið 2001. Ég var ungur leikstjóri og þráði breytingar í leikhúsinu, vildi finna ný form, prófa nýjar aðferðir. Eldfés var verkið sem kynnti Marius til leiks sem eitt hinna svokölluðu „in-yer-face” leikskálda, sem einnig voru nefnd „blood and sperm” kynslóðin. Þar fór hann fremstur í flokki ásamt Söruh Kane og Mark Ravenhill. Eldfés hafði mikil áhrif á mig, það talaði svo beint til manns, fagurfræðin var beinskeytt með stuttum, hárbeittum senum og höfundurinn kafar djúpt í sálarlíf persónanna. Verkið sameinar frumstæða og goðsagnakennda arfleifð grísku harmleikjanna og hraðann sem einkennir kvikmyndir Tarantinos. Það er fyndið og skrítið, villimannslegt og áræðið, alveg einstakt. Það fannst á hverju orði í leikritinu að þarna fór rithöfundur sem vildi kraftmikið og ágengt leikhús, líkt og ég sjálfur. Við hittumst fyrst í Sydney í tengslum við uppsetninguna og náðum strax vel saman, þar hófst samvinna okkar og vinátta. Segja má að samtal okkar sem hófst þegar við borðuðum saman í fyrsta skipti sé enn í gangi, samtal um leikhúsið og lífið og allt þar á milli. Fyrir milligöngu Mariusar var mér boðið að leikstýra við Schaubühne-leikhúsið í Berlín og hann var dramatúrg í nokkrum sýningum hjá mér þar.

Ég fann strax og við kynntumst að hann er hreinræktað „leikhúsdýr”. Hann býr yfir háþróuðu næmi fyrir list leikarans og djúpum skilningi á þeim kröftum sem eru að verki á leiksviðinu, og verkin hans bera því vitni. Hann sættir sig ekki við að vinna eftir hefðbundnum leiðum og leikritin hans bjóða því stöðugt upp á nýja möguleika og opna nýjar lendur í leikhúsinu. Hann er í stöðugri tilraunastarfsemi, reynir á þanþol leikstjórans, leikaranna og áhorfenda og fer með þá langt út fyrir þægindarammann. En hann er líka alltaf með blik í auga og hefur frábæra kímnigáfu. Ég er heillaður af því hvað hann er skarpur, heiðarlegur og uppátækjasamur, og af einstakri sýn hans á heiminn. Hann slær aldrei af, styttir sér aldrei leið. Hann er hugrakkur og samviskulaus, hann er „the real fucking deal”. Nú, tveimur áratugum eftir að ég setti upp Eldfés, leita ég enn í verkin hans af því hann er sá samtímahöfundur sem talar mest til mín. Það er enginn eins og hann.

 

Marius, hvernig er samvinnu ykkar Benedicts sem höfundar og leikstjóra háttað? Vinnið þið náið saman í ritunar- og æfingaferli verkanna?

Eini leikstjórinn sem stundum kemur að ritunarferli verka minna er ég sjálfur. Síðustu tólf árin hef ég sjálfur leikstýrt frumuppfærslum á verkunum mínum og auðvitað hefur það haft mikil áhrif á skrifin – kannski til hins betra, kannski ekki. Áður en ég fór að leikstýra sjálfur var ritunarferlið líka mjög einmanalegt. Eina undantekningin var sýning sem við Benedict unnum saman að fyrir Adelaide-hátíðina, Moving Target. Þá vorum við búnir að vinna saman í nokkur ár, hann sem leikstjóri og ég sem dramatúrg. Við höfðum myndað mjög sérstaka listræna vináttu og Benedict spurði mig hvort ég hefði áhuga á að vinna sýningu með honum alveg frá grunni. Það er að segja að byrja að æfa með hópi af leikurum með ekkert í höndunum nema hugmynd. Engan texta, enga leikmynd – ekkert. Allt yrði þróað í æfingaferlinu. Þetta var mjög kraftmikið og fallegt ferli. Fljótlega eftir þessa sýningu fór Benedict að skrifa leikrit sjálfur og ég að leikstýra.

 

Marius, verkin í þríleik þínum, Ellen B., Ex og Alveg sama (Egal) eru á margan hátt ólík, en formið er svipað og það eru þemu og ákveðnir eiginleikar sem tengja þau. Hvaðan spretta þessi verk og hvers vegna líturðu á þau sem þríleik?

Rétt áður en öllu var skellt í lás vegna Covid árið 2020 var frumsýnt eftir mig leikrit. Frumsýningarpartýið var fyrsti smitpotturinn í nærumhverfi mínu og daginn eftir frumsýninguna var öllum leikhúsum í Berlín lokað. Þetta var mjög erfitt, ég sá fram á að leikritið mitt myndi ekki lifa áfram, enginn myndi koma að sjá það. Og þá byrjaði ég að skrifa Ex, skrifin urðu eins og einskonar þerapía fyrir mig. Frá því að skrifa Ex fór ég yfir í að skrifa Ellen B. og daginn sem ég lauk við Ellen B. byrjaði ég að skrifa Alveg sama. Það var eins og verkin yxu hvert út úr öðru og öll uxu þau út úr frelsinu sem fólst í því að vera innilokaður og í þessum félagslegu höftum.

Ég hafði gengið með flestar hugmyndirnar árum saman en aldrei haft tíma til að skrifa þær niður. Hugmyndin að Ex fæddist t.d. þegar ég átti samtal við nokkra kollega um stéttskipt þjóðfélög í leikritum fyrri alda, hvort okkar þjóðfélag væri eins stéttskipt og áður, eða hvort stéttaskipting væri jafnvel liðin undir lok. Í Ex hafa mál sem tengjast stéttaskiptingu mikil áhrif á átök parsins sem er í forgrunni. Ellen B. Er kannski persónulegra verk, en Alveg sama sprettur aftur á móti upp úr vandamálum í okkar afturhaldssama þjóðfélagi. Öll verkin eiga það sameiginlegt að hafa á sér yfirbragð innilokunar, bæði hvað varðar bygginguna – þetta eru allt einþáttungar – og hvað tungumálið snertir. Mér finnst þau vera á sama hraða, með svipað hitastig, og samtölin eru drifin áfram eins og í gamanleik. Persónurnar eru allar með þráhyggju fyrir því að eiga í átökum og verða að bera sigur úr býtum í öllu sem þær rífast um. Verkin eru eins og systkini með ólík áhugamál, ólíka galla og kannski ólíka hæfileika, mér finnst eins og þau kallist á. Og vonandi á áhorfandi sem sér þau öll eftir að njóta samvistanna við þessa þrjá „illgjörnu þríbura”.

Benedict, hvers vegna langaði þig að takast á við þessi leikrit og hvað viltu segja um tengslin á milli verkanna sem mynda þríleikinn?

Við Marius töluðum nokkuð reglulega saman í gegnum Zoom á Covidtímabilinu og þá fór hann að lýsa nýju verkunum sem hann var að skrifa og kallaði seinna „Lockdown”-þríleikinn sinn. Þegar hann deildi svo verkunum með mér varð ég heillaður af nándinni og ákefðinni í þeim, af þessum stöðugu átökum sem hann náði að láta stigmagnast.

Verkin segja ólíkar sögur og fjalla um ólíkar persónur en þau eiga ákveðin þemu og formið sameiginlegt. Þetta eru þrjú kammerverk, tvö tríó og einn dúett. Hver einþáttungur er um ein og hálf klukkustund að lengd, allt er leikið í einum rykk, í rauntíma. Öll gerast þau inni á heimili, í stofu. Öll beina sjónum að dýnamíkinni í samskiptum hjóna, af hárbeittri nákvæmni og grimmd. Mér finnst vera mikil nánd í verkunum, þó eru þau epísk, ótrúlega persónuleg en samt einhvern veginn almenn. Við fyrsta lestur gagntóku þau mig, þau voru svo hlaðin og komu mér úr jafnvægi. Mig langaði strax til að rannsaka þau með leikurum í æfingarými. Ég hafði á tilfinningunni að það myndi verða eins og að sviðsetja þungavigtarbardaga í boxi, að átökin í þeim og tilfinningaleikfimin væri á þeim skala. Hvert hlutverk var eins og gjöf til leikarans. Eftir fjarveru mína frá leikhúsinu – meðan ég var að leikstýra kvikmyndum og á Covid-tímanum – þá fannst mér þessi leikrit einmitt vera „kjöt” sem mig langaði að sökkva tönnunum í.

Verkin þrjú bera þess skýr merki að hafa verið skrifuð í þeirri einangrun og innilokunarkennd sem fylgir sóttkví og samkomutakmörkunum. Þótt aldrei sé rætt um farsóttina beint í verkunum þá spretta þau greinilega upp úr bæði persónulegu og samfélagslegu hættuástandi. Hin djúpstæðu vandamál nútímans kalla fram spurningar um fortíð og framtíð. Persónurnar í verkunum lifa og hrærast í tilfinningalegu hættuástandi sem stigmagnast. Íbúðirnar þeirra verða nokkurs konar hraðsuðupottar þar sem sjálfur grunnurinn í sambandi þeirra springur og opnast. Marius býður okkur að fylgjast með átökunum sem upp úr þessu spretta, úr stúkusæti. Þó að hvert verkanna sé sjálfstætt lítur hann á þau sem systkini og ég er spenntur að bjóða áhorfendum upp á að kynnast þessum heiftúðugu þríburum. Líkt og um væri að ræða afmarkaða HBO seríu, þríleik Kieslowskis um Litina þrjá eða þrjá ólíka hluta skáldsögunnar 2666 eftir Roberto Bolaño, þá er ég forvitinn að sjá hvernig þessir sjálfstæðu hlutar koma til með að mynda eina heild.

Marius, verkin þín eru oft nokkurs konar andsvar við því sem er að gerast í samfélaginu. Í Ellen B. kemurðu inn á viðkvæmt umfjöllunarefni, ásakanir um kynferðislega áreitni og misnotkun. Hér á Íslandi var MeToo umræðan mjög kraftmikil, en sumir karlmenn hafa verið hræddir við að tjá sig um málefnið.

Ég held að karlmenn þurfi að hætta að skilgreina frelsisbaráttu og femínisma sem einvörðungu málefni kvenna. Reynsla af kynferðislegri misnotkun er ekki bundin við einungis eitt kyn. Þetta er almenn ógn. Fyrir mitt leyti er ég ekki í neinum vafa um að valdastrúktúrinn á bak við hvert kynferðisbrot sé hægt að skilgreina sem karllægan. En innan þess ramma geta gerendur verið bæði karlar og konur. Það er þetta kerfi og valdið sem verður til í gegnum tungumálið sem ég hef áhuga á. Það er nokkurs konar vald sem byggist á misnotkun og viðheldur misnotkun. Það er ákveðin tegund af ofbeldi sem þarf ekki að vera kynferðislegt til að leggja líf manneskju í rúst.

 

Hvernig sérð þú fyrir þér, Benedict, sem karlkyns leikstjóri, að nálgast verk um þetta viðkvæma málefni?

Efniviðurinn í Ellen B. kemur inn á það sem ég hef mestan áhuga á sem leikstjóri – ráðgátuna um langanir og þrár mannsins og afleiðingar sem af þeim hljótast. Þó að verkið sé algjörlega einstakt hvað varðar efni og tilurð þá er sama hugmyndafræði að baki Ellen B. og Blackbird eftir David Harrower, en það verk sviðsetti ég í Schaubühne, og skrifaði svo upp úr því handrit að minni fyrstu kvikmynd, Unu. Í báðum verkunum erum við krafin um að meta eyðilegginguna sem glæpsamlegt, kynferðislegt misnotkunarsamband veldur, og að greina valdastrúkturinn í slíku sambandi. Þegar ég leikstýrði Unu kynnti ég mér í þaula reynslu þolenda kynferðisofbeldis. Ég reyndi að vera trúr sannleikanum og þeim flækjum sem einkenna slíka reynslu, þeim tilfinningalega ruglingi sem getur orðið milli ástar og nauðgunar. Takmark mitt hér er það sama. Á sama hátt og verkið Una, þá neitar leikritið Ellen B. að veita auðveld svör. Marius dregur áhorfendur inn í flókinn lygavef valdbeitingar og þrár. Hann greinir hvernig valdbeiting í kynferðislegri misnotkun virkar, hvernig tungumálið er notað sem vopn til að þvinga og táldraga.


Sem leikstjóri þá lít ég svo á að starf mitt sé að vera sérfræðingur í persónulegum átökum, og það felist í að færa áhorfendur nálægt hinum nöktu taugum verksins. Ég sækist ekki eftir auðveldum lausnum, ódýrum meðölum eða plástrum. Ég vil að áhorfendur upplifi verkið með öllum sínum sóðalegu flækjum og að þeir neyðist til að taka afstöðu, en að þeir skipti svo um lið aftur og aftur á meðan þeir stara inn í sárið. Ég vil að áhorfendur rífist um verkið á barnum eftir sýningu og að persónurnar og vandamál þeirra dvelji með þeim löngu eftir að tjaldið fellur.

 

Benedict, frumsýningin á Ellen B. í Þjóðleikhúsinu verður frumuppfærsla verkins. Er þér mikilvægt að vinna við ný verk og hvernig er það ólíkt því að leikstýra sýningum á klassískum verkum?

Það má segja að ég reyni að finna það nútímalega í klassískum verkum og öfugt. En á endanum snýst þetta alltaf um að sviðsetja lífið sjálft, með allri sinni blíðu, viðkvæmni og grimmd. Það er auðvitað mikil ánægja og forréttindi að vera viðstaddur fæðingu nýs verks, að koma með það inn í heiminn, sparkandi og öskrandi í fyrsta sinn.

 

Marius, þú munt leikstýra Alveg sama hér í Þjóðleikhúsinu á næsta ári, hvaða væntingar hefurðu til vinnunnar?

Ég hlakka til að vinna með Benedict og Ninu Wetzel, leikmynda- og búningahöfundi, í þessu nýja og risavaxna samhengi. Þau eru bæði nánir vinir og listrænir samverkamenn mínir, og ég er forvitinn að sjá hvert þetta nýja skref í okkar listrænu samvinnu leiðir okkur. Það er líka nýtt og alveg sérstakt fyrir mig sem höfund að þrjú verk eftir mig séu sett upp á svo stuttum tíma og í svona miklu návígi. En aðallega er ég spenntur vegna þess að Ísland býr yfir stórkostlegri menningu sem ég hlakka mjög til að komast í snertingu við. Það að leikstýra verki þar sem samtöl eru helsta driffjöðrin á öðru tungumáli verður áskorun, en ég hef alltaf haft gaman af þeirri fjarlægð sem það að vinna á öðru tungumáli skapar. Því vonast ég eftir gjöfulum samskiptum og leiftrandi kynnum við nýja áhorfendur.

Viðtal: HHG og MTÓ

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími