Frumsýning á nýju verki Ólafs Jóhanns, Íbúð 10B, í leikstjórn Baltasars Kormáks

Íbúð 10B, glænýtt verk eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, í leikstjórn Baltasars Kormáks, verður frumsýnt á Stóra sviðinu föstudaginn 17. október. Þeir félagar sameina nú krafta sína á nýjan leik eftir stórkostlega velgengni kvikmyndarinnar Snertingar.
Að þessu sinni er umfjöllunarefnið húsfélagsfundur í glæsihýsi þar sem einn íbúanna hefur uppi áform sem leggjast mis vel í aðra íbúa. Leikhópurinn er sannkallað einvalalið: Björn Thors, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Unnsteinn Manúel, Svandís Dóra, Margrét Vilhjálmsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.
Ögrandi og meinfyndið verk beint úr íslenskum samtíma
Einn eigenda glæsilegs fjölbýlishúss í Reykjavík hefur ákveðið að breyta lúxusíbúð sinni í gistiheimili fyrir tuttugu arabíska hælisleitendur. Aðrir íbúar í húsinu eru mjög hlynntir fjölbreytileika en sætta sig ekki við að reglur húsfélagsins séu fótumtroðnar. Nú reynir á yfirvegun og samstöðu. Og hvar liggja mörk góðmennskunnar?
Marta og Heiðar bjóða nágrönnum sínum heim til að ræða málin yfir góðum ostum og víni. Undir kurteislegu yfirborðinu tekur brátt að glitta í lögmál frumskógarins og notaleg kvöldstund snýst upp í harðvítug átök þar sem villidýrseðlið brýst fram. Við viljum vera góð – en hversu langt erum við tilbúin að ganga?
Nánar um sýninguna
Sameina krafta sína í kjölfar ótrúlegrar velgengni kvikmyndarinnar Snertingar
Baltasar Kormákur og Ólafur Jóhann unnu saman að hinni stórbrotnu kvikmynd Snertingu og sameina nú krafta sína að nýju á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Verk þeirra hafa heillað lesendur og áhorfendur um allan heim og sópað að sér verðlaunum. Frábærlega vel skrifað og spennuþrungið leikrit, sem heldur þér í heljargreipum.
Leikarar
Björn Thors, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Unnsteinn Manúel, Svandís Dóra, Margrét Vilhjálmsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Listrænir stjórnendur
Leikstjórn
Baltasar Kormákur
Leikmynd
Ilmur Stefánsdóttir
Búningar
Sunneva Ása Weisshappel
Lýsing
Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist
Gísli Galdur Þorgeirsson
Hljóðhönnun
Aron Þór Arnarsson
Umræður eftir 6. sýningu.
Hefðinni samkvæmt býður Þjóðleikhúsið upp á umræður eftir 6. sýningu. Listrænir stjórnendur og leikarar sitja fyrir svörum og ræða verkið og uppsetninguna.
Textun á ensku og íslensku á 7. sýningu
Þjóðleikhúsið leggur aukna áherslu á að mæta ólíkum þörfum leikhúsgesta. Þriðja leikárið í röð verður boðið upp á textun á ensku og íslensku á 7. sýningu valinna verka. Textar birtast á skjám sem komið er fyrir til hliðar við sviðið eða fyrir ofan það, eftir því sem við á hverju sinni. Miðasala veitir upplýsingar um hentugustu sætin hverju sinni fyrir þá sem vilja nýta sér textun. Textaðar sýningar henta vel þeim sem ekki tala íslensku eða eru að læra hana, eða búa við heyrnarskerðingu. Stórum skjám er komið fyrir í stúkunum til hiðar við sviðið eða ofan við það. Þar birtist textinn bæði á íslensku og ensku. Further information here / nánari upplýsingar hér.
