22. Sep. 2020

Bryndís Pétursdóttir leikkona látin

Okkar ástsæla leikkona, Bryndís Pétursdóttir, er látin 92 ára að aldri. Hún var leikkona í Þjóðleikhúsinu í nærri hálfa öld og lék mörg af helstu kvenhlutverkum leikhúsbókmenntanna á Stóra sviði Þjóðleikhússins.


Bryndís steig fyrst á svið undir leikstjórn Lárusar Pálssonar sem Cecilía í Jónsmessudraumi á fátækraheimilinu árið 1946 og upp frá því hafði hún leiklistina að lífsstarfi. Hún steig fyrst leikara á svið Þjóðleikhússins, í fyrstu vígslusýningu hússins, 1950, sem Guðrún í Nýársnóttinni og lék síðan í Þjóðleikhúsinu þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir, ef frá eru talin nokkur leikrit hjá LR, auk þess sem hún tók þátt í sýningu hjá LA. Á yngri árum fór hún í fjölda leikferða um landið á sumrin.
Bryndís lék einnig í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi, og fór meðal annars með aðalhlutverk í fyrstu íslensku kvikmyndunum, Milli fjalls og fjöru og Niðursetningunum.

Meðal minnisstæðra hlutverka Bryndísar við Þjóðleikhúsið má nefna Rósalind í Sem yður þóknast; Helgu í Gullna hliðinu 1952 og 1955; Sigríði í Pilti og stúlku; Ismenu í Antígónu; Sigrúnu í Manni og konu; Maríu mey í Gullna hliðinu, Júlíu í Romanoff og Júlíu; Helenu Charles í Horfðu reiður um öxl; Völu í Lausnargjaldinu, Eunice í Sporvagninum Girnd og Mundu í Stalín er ekki hér. Bryndís lék síðast á sviði í Kaffi eftir Bjarna Jónsson á litla sviði Þjóðleikhússins árið 1998. En síðasta hlutverk Bryndísar var í útvarpsverkinu Einförum (sex einþáttungar fyrir eldri leikara) eftir Hrafnhildi Hagalín árið 2010 og var það hlutverk skrifað sérstaklega fyrir hana.

Í áttræðisafmæli Bryndísar sagði Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, meðal annars: „Ég man vel hvenær ég sá þig fyrst; það var sem nafna þín í Galdra-Lofti 1948 og þú birtist í dyrunum og sagðir með þínum sjálfgefna þokka: Ég er komin. Og það voru orð að sönnu. Þú varst komin til að vera í íslensku leikhúsi.“ Og Sveinn heldur áfram: „Áður hafðir þú m.a. þreytt frumraun þína í leikriti eftir Pär Lagerkvist og virðist hafa töfrað gagnrýnendur upp fyrir haus: jafn glóandi ástarjátningu hef ég sjaldan lesið. Svo urðuð þið Gunnar Eyjólfsson fyrstu kvikmyndastjörnurnar okkar; myndin heitir Milli fjalls og fjöru og því miður var þá langt í íslenska kvikmyndavorið, svo að eðlilegt framhald varð ekki á. Í staðinn lékstu allar ungu stúlkurnar okkar á sviði, þar á meðal hina ógleymanlegu Rósalind (Sem yður þóknast) hjá Shakespeare.“

Bryndís hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á 50 ára afmæli Þjóðleikhússins og var fastagestur á frumsýningum leikhússins eftir að hún hætti störfum. Eftir henni var tekið hvert sem hún fór fyrir glæsileika og geislandi viðmót og hún var elskuð og dáð sem leikkona og samstarfskona.

Starfsfólk Þjóðleikhússins minnist Bryndísar með hlýhug og þakklæti og sendir sonum hennar, Eiríki, Sigurði og Pétri og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími