03. Sep. 2021

Ávarp þjóðleikhússtjóra á nýju leikári

Kæru leikhúsgestir.

Að nýju hefst leikár Þjóðleikhússins við óvenjulegar aðstæður. Í eitt og hálft ár hefur heimurinn verið á hvolfi. Tímarnir hafa verið krefjandi fyrir alla og þar er leikhúsið sannarlega ekki undanskilið. Leikhúsið byggist jú á því að við komum saman, njótum saman og upplifum saman. Þannig verður hinn óútskýranlegi og magnaði leikhúsgaldur til. Þess vegna hafa samkomutakmarkanir haft mikil áhrif á leikhúslíf um allan heim. Við í Þjóðleikhúsinu höfum fagnað hverju tækifæri sem hefur gefist til að mæta áhorfendum og hrífa þá með. Jafnframt höfum við leitað allra leiða til að auðga andann og gleðja landsmenn eftir nýjum leiðum þegar samkomubann hefur verið í gildi. Tímann höfum við líka nýtt vel til að rannsaka, gera tilraunir og undirbúa sérlega vel þær metnaðarfullu sýningar sem bíða leikhúsgesta á nýju leikári. Leikhúsið sjálft hefur verið tekið í gegn, að innan sem utan, og þjónusta við gesti hefur verið stórbætt.

Við erum tilbúin og hefjum nýtt, kraftmikið leikár með óendanlegri tilhlökkun. Verkefni leikársins eru fjölbreytt, metnaðarfull og leidd af listamönnum í fremstu röð, innlendum og erlendum. Ég veit að áhorfendur munu geta speglað sig í ólíkum sögum og persónum sem birtast á sviðinu. Við bjóðum upp á sýningar sem er ætlað að hreyfa við áhorfendum og fá vonandi okkur öll til að sjá lífið í nýju ljósi. Síðast en ekki síst mun leikhúsið sameina, gleðja og kæta í vetur.

Leikhúsið, með sinn kynngimagnaða sameiningarkraft, hefur alltaf verið mikilvægt – en sjaldan eins og nú á tímum heimsfaraldurs. Við höfum öll ríka þörf fyrir að líta inn á við, eiga samtal hvert við annað og kryfja mennskuna. Allt þetta bíður ykkar í leikhúsinu í vetur. Þar sem áhrifa faraldursins gætir enn í heiminum, munum við sem fyrr setja öruggt sýningarhald í öndvegi og gera ykkur kleift að breyta bókuðum miðum og kortum án nokkurra vandkvæða. Við hlökkum óskaplega til að sjá ykkur, kæru áhorfendur.

Sjáumst í leikhúsinu,

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími