Alþjóðlegur dagur leiklistar
Í dag er Alþjóðlegur dagur leiklistar. Hann ber upp á óvenjulegum tímum. Á þessum degi er Magnúsi Geir þjóðleikhússtjóra, Margréti Bjarnadóttur höfundi innlenda ávarps dagsins og Shahid Nadeem, tíðrætt um mikilvægi samveru og samkenndar. Hugleiðingar þeirra má lesa hér.
Frá þjóðleikhússtjóra
Í dag er Alþjóðlegi leiklistardagurinn. Hann ber upp á óvenjulegum tímum fyrir heimsbyggðina alla – líka fyrir leikhúsið. Leikhúsið ræktar samkennd og mennskuna sjálfa. Leikhúsið byggist á samveru og því að upplifa saman, hér og nú. Þessa dagana er ekki í boði að upplifa saman, við erum tvístruð og um heim allan standa leikhús auð. Í þessum tímabundnu aðstæðum gera leikhús tilraunir og kanna nýjar miðlunarleiðir.
Um leið söknum við þess að vera saman. Við erum minnt á kynngimagnaðan galdur sem verður til þegar fólk kemur saman, andar saman og upplifir saman. Um það snýst leikhúsið. Og þá erum við jafnframt minnt á að það er ekki sjálfgefið að geta verið saman. Við, leikhúsfólk, erum þakklát fyrir alla áhorfendurna sem kjósa að vera með okkur, áhorfendurna sem treysta okkur fyrir tíma sínum og leyfa okkur að hreyfa við sér. Við heitum því að vanda okkur, að velja verðug viðfangsefni og sögur sem eiga erindi – sögur sem skipta máli og geta jafnvel breytt sýn okkar á heiminn og lífið sjálft.
Við getum ekki beðið eftir því að taka á móti áhorfendum á nýjan leik og fylla leikhússali landsins af fólki sem upplifir saman. Í ávarpi dagsins, sem Margrét Bjarnadóttir dansari flutti fyrir auðum sal Þjóðleikhússins nú klukkan tíu en var streymt um alnetið, endaði hún á eftirfarandi orðum: „ Eins og staðan er núna bjóða öll auðu svið heimsins ekki upp á neitt – nema endalausa möguleika.“
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri
– – –
Innlent ávarp dagsins er samið og flutt af Margréti Bjarnadóttur, dansara og sviðshöfundi.
Ávarp á alþjóðlegum degi leiklistar
Hér má lesa ávarp Margrétar
LESA INNLENT ÁVARP
Erlent ávarp dagsins var samið af Shahid Nadeem, frá Pakistan.
Það má lesa hér í þýðingu Hafliða Arngrímssonar
LESA ERLENT ÁVARP