26. Mar. 2020

Alþjóðlegi leiklistardagurinn – erlent ávarp

Boðskapur á alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2020 eftir leikskáldið Shahid Nadeem, frá Pakistan.

Leikhúsið sem helgiskrín.

Að lokinni sýningu Ajoka-leikhússins[1] um Súfí[2]skáldið Bulleh Shah[3] kom gamall maður til leikarans sem lék hinn mikla súfa. Í fylgd gamla mannsins var ungur drengur. „Barnabarninu mínu líður mjög illa, gætirðu veitt honum blessun þína?“ Leikarinn varð undrandi og vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við og sagði: „Bahaji[4] ég er ekki Bulleh Shah, ég leik þetta hlutverk bara.“ Gamli maðurinn sagði við hann: “Sonur, þú ert ekki leikari, þú ert endurholdgaður Bulleh Shah, Avatar[5] hans.” Skyndilega rann upp fyrir okkur nýtt hugtak leiklistarinnar, endurholdgun: Leikarinn endurholdgast í persónunni sem hann eða hún er að sýna.

Sögur á borð við sögur Bulleh Shah – og þær eru afar margar í allri menningu – geta orðið brýr milli okkar leikhúsfólksins og óreyndra og áhugasamra áhorfenda.

Þegar við stöndum á leiksviðinu hrífur stundum heimspeki okkar um leikhús okkur með sér, burt frá hlutverki okkar sem frumkvöðla samfélagslegra breytinga og þar með náum við ekki til fjölda fólks.

Þegar við tökum þátt í áskorunum samtímans sviptum við okkur möguleikanum á djúpum tilfinningum andlegrar upplifunar sem leikhúsið getur veitt okkur.

Í heimi nútímans þar sem fordómar, hatur og ofbeldi eru að aukast enn og aftur og plánetan okkar sekkur dýpra og dýpra í loftslags- og veðurfarshörmungar verðum við að endurnýja andlegan styrk okkar; við verðum að berjast gegn afskiptaleysi, sleni og tómlæti, svartsýni og græðgi og berjast gegn ósvífnum þjösnaskap gagnvart heiminum okkar og jörðinni okkar.

Leikhús hefur hlutverki að gegna, göfugu hlutverki, með því að styrkja og virkja mannkynið til að rífa sig upp úr þeim forarpytti sem það er að sökkva í. Það getur umbreytt leiksviði og sýningarrými í helgistað.

Í Suður-Asíu, snerta listamenn leiksviðið af lotningu áður en þeir stíga á það. Það er forn hefð frá tímum þegar hið andlega og menningarlega voru enn nátengt. Það er kominn tími til að enduruppgötva þetta samband listamanns og áhorfanda, fortíðar og framtíðar. Leiklist getur verið heilög list og leikarar geta svo sannarlega orðið avatarar hlutverkanna sem þeir leika. Leikhús lyftir list leikarans á æðra andlegt stig. Leikhús getur orðið helgiskrín og helgiskrínið orðið að leikrými.


[1] Ajoka-leikhúsið: Stofnað árið 1984. Ajoka þýðir samtímalegur. Á verkefnaskrá þess eru leikrit sem fjalla um trúarlegt umburðarlyndi, frið, ofbeldi kynjanna, mannréttindi.

[2] Súfismi er dulhyggju- og meinlætastefna í Íslam; varð til m.a. við áhrif frá kristni, gnóstíkastefnu, nýplatónsku og írönskum og indv. trúarbrögðum. Súfar fasta, sæta freistingum illra afla, stunda hugleiðslu, endurtaka stöðugt nafn Allah eða stuttar trúarsetningar til að halda huganum föstum við guðinn. Áhersla er lögð á takmarkalausan kærleik til Allah og takmarkið er að glata einstaklingseðli sínu og renna saman við guðdóminn.

[3] Bulleh Shah (1680-1757) Áhrifamikið súfí-skáld í Punjab sem skrifaði á einföldu auðskildu máli um flókin heimspekileg efni. Hann var öflugur gagnrýnandi bókstafstrúar og harðstjórnar og var bannfærður úr borginni Kasur, sakaður um villutrú og var neitað um grafreit í borginni. Vinsæll meðal trúaðra alþýðusöngvara.

[4] Babaji er virðingarávarp gagnvart öldnum manni.

[5] Avatar er guð í hindúasið sem stígur niður til mannanna og endurholdgast í jarðneskri mynd.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími