14. Des. 2023

Aðventustundir Þjóðleikhússins vekja lukku víða

Aðventustundir Þjóðleikhússins í samfélagshúsum, félagsmiðstöðvum, hjúkrunarheimilum og dagdvölum Reykjavíkurborgar hafa undanfarið farið fram víða um bæinn. Nokkrir valinkunnir leikarar hafa stytt þeim stundir sem eiga ekki eins hægt um vik og aðrir með að skella sér í leikhús. Þau Örn Árnason, Oddur Júlíusson, Ilmur Kristjánsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Ebba Katrín Finnsdóttir hafa undanfarnar tvær vikur heimsótt fjölda staða og flutt skemmtilega jóladagskrá sem hefur heldur betur vakið lukku!

Aðdraganda aðventustundanna má rekja til heimsfaraldurs Covid-19. Í desember árið 2020, þegar faraldurinn geisaði, fóru leikarar á Aðventubílnum um borgina og sungu fyrir utan félagsmiðstöðvar og hjúkrunarheimili til að létta íbúum lífið. Þá tókst á gott samstarf við velferðarsvið Reykjavíkur, sem sér um að skipuleggja viðburðina. Framlag leikaranna felst í að mæta á svæðið, með nauðsynlegan hljóðbúnað í för, syngja, leika og bera með sér jólagleði og stemningu. Sungin eru þekkt íslensk jólalög, farið með Skrögg í ljóðaformi og Jólakött Jóhannesar úr Kötlu og þá er flutt syrpa erlendra jólalaga.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími