21. Nóv. 2024

50. sýningin á Saknaðarilmi

Sýningin Saknaðarilmur sem gengið hefur fyrir fullu húsi frá því að hún var frumsýnd í febrúar, verður sýnd í 50. sinn nú á sunnudag.  Alls hafa um sjö þúsund gestir séð Unni Ösp Stefánsdóttur leika sýninguna, en verkið skrifaði hún sjálf upp úr bókum Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Leikstjóri er Björn Thors, en skemmst er að minnast einstakra viðtaka á verkinu Vertu úllfur, þar sem hlutverk hjónanna var á hinn veginn, þeas. Björn lék og Unnur leikstýrði.
Sýningum á Saknaðarilmi lýkur í desember og því fer hver að verða síðastur að tryggja sér miða. Unnur mun þá snúa sér alfarið að undirbúningi næsta verkefnis, sem er söngleikurinn Stormur sem verður frumsýndur á Stóra sviðinu í febrúar.

Kaupa miða

Mundu töfrana
Í Saknaðarilmi fylgjumst við með því þegar fullorðin skáldkona missir móður sína og þá er loks komið að stóra uppgjörinu. Nú fyrst er hún tilbúin til þess að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt. Af hverju náðu þessar tvær konur aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra?


Geta áföll gert okkur veik?
Í verkinu er velt upp spurningum á borð við: Geta áföll gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða? Verkið er áhrifarík saga af lítilli, draumlyndri stúlku sem verður að manísku skáldi, ástföngnum fíkli og stórskemmtilegum sögumanni. Hún er brotin, beitt og brjáluð. Þetta er saga af tengslum og tengslaleysi foreldra og barna, nánd og nándarleysi í veruleikafirrtum heimi sem gerir kröfur um að við pössum í fyrirframgerð mót, stöndum okkur og glönsum.


Í rökréttu framhaldi af verðlaunasýningunni Vertu úlfur
Stór hluti listræna teymisins sem setti upp verðlaunasýninguna Vertu úlfur, vinnur nú að nýrri uppsetningu. Vertu úlfur hreyfði rækilega við áhorfendum, hlaut sjö Grímuverðlaun og var sýnd fyrir fullu húsi þrjú leikár í röð. Í þetta sinn verður Björn Thors í leikstjórastólnum en Unnur Ösp leikur. Elín Hansdóttir, Filippía Elísdóttir og Björn Bergsteinn Guðmundsson verða áfram um borð en nú bætast Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson við hópinn og munu þau semja tónlistina.

 

 

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 12 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími