Leikstjóri
María leikstýrir Prinsinum í Þjóðleikhúsinu í vetur, og er annar handritshöfunda.
María Reyndal útskrifaðist sem leikari með BA gráðu frá The Central School of Speech and Drama í London árið 1997. Hún stundaði meistaranám á Nýja Sjálandi í Screen production og útskrifaðist með láði frá University of Auckland árið 2010. María starfar sem höfundur og leikstjóri jafnt í leikhúsi og sjónvarpi. Nýleg verk hennar í leikhúsi eru „Haukur og Lilja“ eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem hún leikstýrði 2021 í Ásmundarsafni, tilnefnt til sex Grímuverðlauna (m.a. leikstjóri ársins, vann leikkonu ársins). Hún leikstýrði „Upphafi“ 2020 í Þjóðleikhúsinu. Hún skrifaði og leikstýrði „Er ég mamma mín?“ (vann Grímuverðlaun, leikkona ársins í aukahlutverki), Borgarleikhúsinu 2020. Hún leikstýrði „Sóley Rós ræstitækni“ sem hún er einnig höfundur að ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur (tilnefnt til fimm Grímuverðlauna, m.a. leikstjóri ársins, vann leikkonu ársins og leikrit ársins) Tjarnarbíó 2017. María var einn af 3 leikstjórum í hinni vinsælu sjónvarpsþáttaröð Verðbúðin en hún vann hin virtu sjónvarpsverðlaun Series Mania í Frakklandi 2021 og fer sigurför um heiminn um þessar mundir. Hún skrifaði handrit og leikstýrði sjónvarpsmyndinni „Mannasiðum“ sem var páskamynd RÚV 2018 og hlaut Edduna sem leikið sjónvarpsefni ársins. „Mannasiðir“ hafa verið sýndir í sjónvarpi á flestum Norðurlöndunum. María hefur skrifað ásamt meðhöfundum þáttaraðir á borð við „Ástríði“ og „Stelpurnar“. María skrifar nú fyrir Borgarleikhúsið verkið „Með Guð í vasanum“ frumsýnt 2023 sem hún mun einnig leikstýra, og fyrir Þjóðleikhúsið skrifar hún ásamt Kára Viðarssyni „Prinsinn“ frumsýnt á Rifi 2022 sem hún einnig leikstýrir.