Tónlistin úr Orra óstöðvandi eftir JóaPé og Króla komin út
Reglulega býður Þjóðleikhúsið börnum á miðstigi barnaskóla í leikhús. Að þessu sinni er boðið upp á glænýja sýningu af Orra óstöðvandi, en hún byggir á geysivinsælum bókum Bjarna Fritzsonar um Orra og vinkonu hans Möggu Messi. Tónlistin í sýningunni er eftir þá félaga Jóhannes Damian R. Patreksson (JóPé) og Kristinn Óla S. Haraldsson (Króla). Fjögur lög hafa nú verið gefin út og eru þau aðgengileg á Spotify og öðrum tónlistarveitum.
Í þessum nýju lögum syngja og rappa leikarar sýningarinnar þau Almar Blær Sigurjónsson og Selma Rán Lima. Búist er við því að nokkur þúsund börn heimsæki Þjóðleikhúsið á næstu vikum en í kjölfar þess verður farið með sýninguna víða um land.
Leikstjóri og höfundur leikgerðar er Vala Fannell. Aðrið listrænir stjórnendur auk Völu og tónlistarmannanna tveggja, eru Hildur Evlalía Unnarsdóttir sem hannar leikmynd, Ásdís Guðný Guðmundsdóttir hannar búninga. Um lýsingu sér Ýmir Ólafsson og hljóðhönnun var í höndum Brett Smith og Jóhannesar.
Félagarnir Kristinn Óli og Jóhannes hafa skapað sér gott orð sem tónlistarmenn á umliðnum árum. Kristinn Óli hefur komið víða við í list sinni. Hann tók þátt í uppsetningu Þjóðleikhússins á sýningunum Óvitar og Fjalla Eyvindur og Halla, í söngleiknum We Will Rock You í Háskólabíó og Benedikt Búálfi og Litlu hryllingsbúðinni í Leikhúsinu á Akureyri. Hann hefur leikið í kvikmyndum á borð Agnes Joy og Bjarnfreðarson. Hann útskrifast af leikarabraut Listaháskóla Íslands vorið 2025 Kristinn er einn þriggja stofnenda Afturámóti.
Jóhannes Damian, betur þekktur sem JóiPé er ásamt Króla tónhöfundur sýningarinnar. Síðastliðið ár hefur Jóhannes stimplað sig inn sem leikhús tónskáld og er Ævintýri Orra óstöðvandi og Möggu Messi önnur leiksýningin sem hann semur tónlist fyrir, en sú fyrri er sýningin Jóla-Lóla sem sýnd var í leikhúsi Akureyrar seinustu jól. JóiPé og Króli hafa gefið út fimm plötur síðan árið 2017 og átti þar á meðal mest seldu plötu ársins 2018. Þeir hafa auk þess sjö sinnum hlotið Hlustendaverðlaunin og fjórum sinnum fengið Íslensku tónlistarverðlaunin. Þeir félagar eru heillaðir af leikhúsi og hyggjast starfa þar á næstu misserum.