21. Maí. 2019

Þóra Friðriksdóttir leikkona látin

Þóra Friðriksdóttir (1933-2019) lék fjölmörg hlutverk við Þjóðleikhúsið á hálfrar aldar ferli

Þóra Friðriks­dótt­ir leikkona lést 12. maí síðastliðinn á 87. ald­ursári og verður útför hennar gerð frá Dómkirkjunni þann 23. maí. Þóra starfaði við Þjóðleikhúsið í um hálfa öld og lék hér yfir 80 hlutverk.

Hún lærði leik­list í London School of Speech and Drama og lærði einnig í Leik­list­ar­skóla Þjóðleik­húss­ins, þaðan sem hún út­skrifaðist 1955.

Þóra lék um skeið með Leikfélagi Reykjavíkur, meðal annars í Tíminn og við, Tannhvassri tengdamömmu og Túskildingsóperunni, og með Grímu og fleiri leikhópum.

Meðal hlutverka hennar í Þjóðleikhúsinu má nefna aðalhlutverkið í Fædd í gær, Súsönnu í Litla kofanum, Alínu Sólness í Sólness byggingameistara, Jenny í Allt í garðinum, Pálínu Ægis í Deleríum Búbónis, Ljónu Ólfer í Strompleiknum, móðurina í Hunangsilmi, Rauðsmýrarmaddömuna í Sjálfstæðu fólki, Blanche Dubois í Sporvagninum Girnd, Kötu í Liðinni tíð, frú Stokkmann í Þjóðníðingi, Nínu í Sólarferð, Júllu í Týndu teskeiðinni, Matthildi í Syni skóarans og dóttur bakarans og Mary Tyrone í Dagleiðinni löngu inn í nótt. Af hlutverkum hennar síðari árin má nefna Daladrottningu í Búkollu, Coru í Himneskt er að lifa, frú Pearce í My Fair Lady, ókunnu konuna í Sönnum sögum af sálarlífi systra, Báru Fengel í Þreki og tárum, Mildred í Kirkjugarðsklúbbnum og Ólafíu í Óskastjörnunni. Síðasta hlutverk Þóru í Þjóðleikhúsinu var árið 1998 í leikriti Arn­mund­ar Backm­an, Maður í mislit­um sokk­um, þar sem voru sam­an komn­ir helstu leik­ar­ar af henn­ar kyn­slóð. Meðfylgjandi mynd af Þóru er úr sýningunni.

Þóra lék einnig fjöl­mörg hlut­verk í sjón­varpi og í kvik­mynd­um og má þar nefna Á hjara ver­ald­ar, Sódómu Reykja­vík og Atóm­stöðina. Þóra lék einnig mikið í útvarpi.

Þjóðleikhúsið þakkar Þóru fyrir samfylgdina í gegnum árin og framlag hennar til leiklistarstarfs í Þjóðleikhúsinu, og sendir jafnframt aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími