24. Ágú. 2022

Þjóðleikhúsið heimsfrumsýnir þríleik eftir eitt virtasta leikskáld samtímans

Magnús Geir þjóðleikhússtjóri, Marius von Mayenburg leikskáld, Nina Witzel leikmyndahöfundur og Benedict Andrews leikstjóri

Þjóðleikhúsið stendur fyrir stórviðburði í íslensku leikhúslífi á Stóra sviðinu – heimsfrumsýningu á glænýjum þríleik eftir Marius von Mayenburg, sem talinn er eitt merkasta núlifandi leikskáld Evrópu. Hinn heimsþekkti leikstjóri Benedict Andrews leikstýrir tveimur verkanna, Ellen B. og Ex, á leikárinu 2022-23 og Marius von Mayenburg mun sjálfur leikstýra því þriðja, Alveg sama, haustið 2023. Hönnuður leikmyndar og búninga er Nina Wetzel en hún starfar við mörg fremstu leikhús Evrópu og er m.a. einn nánasti samstarfsmaður leikstjórans Ostermeier. Það er mikill fengur fyrir íslenska leikhúsgesti og listafólk að fá þetta virta leikhúslistafólk hingað til starfa.  


Leikritin eru afburðavel skrifuð og fjalla um ástina og valdið í samtímanum, nútímafólk og nándina, af nístandi hreinskilni og kolsvörtum húmor. Ellen B.  verður frumsýnt 26. desember en Ex
þann 28. janúar. Þriðja verkið, Alveg sama, verður frumsýnt snemma á leikárinu 2023-2024.  

Þungavigtaleikarar leika í verkunum, en Unnur Ösp Stefánsdóttir, Benedikt Erlingsson og Ebba Katrín Finnsdóttir leika í Ellen B. Leikarar í Ex eru Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson og Kristín Þóra Haraldsdóttir.  

Leikár Þjóðleikhúsið er kynnt þessa dagana og á næstu dögum verður leikárið opinberað í heild sinni í kynningarriti leikhússins – en því verður nú dreift í takmörkuðu upplagi í prentaðri útgáfu heim til þeirra sem skrá sig fyrir blaðinu í stað þess að fjöldadreifa blaðinu inn á öll heimili. Þessi ráðstöfun er hluti af nýrri grænni stefnu Þjóðleikhússins og stuðar að umhverfisvænni nálgun í starfseminni. Einnig verður hægt að panta blaðið í pósti eða á rafrænu formi.

Opnunartími miðasölu

Miðasala Þjóðleikhússins er opin virka daga frá kl. 14 – 18 og til kl. 20.00 á sýningarkvöldum. Um helgar er miðasalan opin frá kl 11 – 18 og til kl 20:00 á sýningarkvöldum

Heimilisfang
Hverfisgata 19, 101 reykjavík
Sjá á korti
Sími