Þjóðleikhúsið frumsýnir glænýtt jólaævintýri á Litla sviðinu
Laugardaginn 15. nóvember frumsýnir Þjóðleikhúsið Jólagjöf Skruggu – jólaævintýri leikhúsálfanna eftir Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Matthías Tryggva Haraldsson. Í leikritinu segir frá leikhúsálfunum Bergrósu og Bergsteini sem hafa verið að skottast um Þjóðleikhúsbygginguna allt frá því að leikhúsið var opnað um miðja síðustu öld. Þau hafa fylgst með æfingum, horft á leiksýningar, leikið sér með búninga og leikmuni og heillast af töfrum leikhússins. Nú loksins eru þau tilbúin til að sýna sína eigin leiksýningu!
Leikarar eru Katla Þ. Njálsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Örn Árnason og svo munu þær Hrafntinna Björk Ævarsdóttir og Júlía Eldon Logadóttir skipta sýningum með sér. Leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson.
Leikmynd og búningar eru eftir Maríu Th. Ólafsdóttur, tónlist sér Friðrik Margrétar-Guðmundsson um, Jóhann Bjarni Pálmason hannar lýsingu og Ásta Jónína Arnardóttir myndband, og um hljóðhönnun sér Þóroddur Ingvarsson.
